Færsluflokkur: Bloggar

Biblían á 100 og eitthvað mínútum

Ég hef gert nokkrar heiðarlegar tilraunir til að lesa Biblíuna í gegnum árin en aldrei komist mjög langt í þeirri ágætu bók.  Ég hef nú reyndar aldrei verið mikill lestrarhestur en einhverra hluta vegna fæ ég stundum þá flugu í höfuðið að kynna mér betur það sem Biblían inniheldur.  Þegar ég var á leið til London um daginn rakst ég á bók í fríhöfninni sem heitir "Biblían á 100 mínútum" og er einhverskonar skyndi útgáfa af hinni helgu bók.  Ég hugsaði mér heldur betur gott til glóðarinnar og hugðist nú fullnægja öllum mínum Biblíuþörfum í eitt skipti fyrir öll.  Ég reiknaði það út að ferðin til London tæki u.þ.b. 180 mínútur þannig að ég hefði góðan tíma til að lesa þessa ágætu bók ásamt því að "njóta" matarins í flugvélinni og jafnvel að fá mér einn lítinn bjór.  Nú svo ef flugið út entist mér ekki til að lesa bókina þá væri einfalt mál að klára hana á heimleiðinni.  Um leið og ég var sestur og búinn að spenna beltið hófst lesturinn.  Athyglin var þó trufluð af og til af samferðafólki mínu sem var að koma sér fyrir allt í kringum mig í flugvélinni með allskonar brussugangi.  Meira að segja flugfreyjan truflaði þennan heilaga lestur þegar hún opnaði hólfið fyrir ofan mig og út hrundi bunki af einhverjum neyðarbæklingum sem þar voru geymdir.  Hún baðst margfaldlega afsökunar en þar sem ég var kominn í þennan kristilega gír datt mér ekki í hug að æsa mig yfir þessu óhappi.

Það er skemmst frá því að segja að hvorki flugferðirnar til né frá London dugðu til að lesa Biblíuna á 100 mínútum.  Hún er reyndar ólesin á náttborðinu hjá mér ennþá.  Ég gríp hana þó af og til en kemst aldrei neitt áfram í henni.  Athyglin fer bara út um hvippinn og hvappinn og ég er farinn að halda að mér sé bara ekki ætlað að lesa Biblíuna.  Ég veit ekki nákvæmlega hvað ég er búinn að eyða miklum tíma í þennan lestur en það eru ábyggilega 100 og eitthvað mínútur.


Bloggleti

Ég var spurður að því s.l. laugardagskvöld hvort ég væri ennþá með flensu.  Svarið er auðvitað nei, en þetta ýtti óneitanlega við bloggaranum í mér og fékk hann til að skammast sín svolítið fyrir bloggleti undanfarið.  Nú er nægilega langt liðið frá kosningum og Eurovision til þess að maður fari ekki að tjá sig um það hér á bloggsíðunni enda mun skemmtilegra að skrifa bara um Lónið, golfið og góða veðrið.  Þetta þrennt hefur skipað töluverðan sess í lífi mínu undanfarna daga auk þess sem nóg hefur verið að gera í spileríi og auðvitað í vinnunni.  Svo styttist í að Nói flytjist til okkar og er gífurlegur spenningur á heimilinu vegna þess.  Við fengum sendan einskonar "ownes manual" um daginn og erum nú að lesa okkur í gegnum hann og undirbúa okkur þannig sem best fyrir komu hvolpsins.  Það er því allt í lukkunnar velstandi hjá mér og mínum, öll flensa á bak og burt og vonandi fyrirgefa aðdáendur þessarar bloggsíðu mér letina undanfarna daga.  Ég lofa að reyna að bæta mig ;)


Flensa

Nú hefur einhver fjárans flensa stungið sér niður á heimilinu og ég ligg heima ásamt yngri dótturinni hóstandi og sjúgandi upp í nefið.  Það að vera veikur er eitt af því leiðinlegasta sem ég geri.  Ég á mjög erfitt með að sitja heima og gera ekki neitt þegar allskonar verkefni bíða þess að vera leyst.  Svo er alveg horðalegt að vera innilokaður í blíðviðri eins og var í gær og þurfa að spila golf í PlayStation með Tiger Woods.  Þá hefði ég nú frekar viljað vera á Silfunesvellinum með Braga Karls.


Fjölgar á Leirunni

hundurJæja góðir hálsar, þá er rétt að gera það opinbert að það er von á fjölgun á Fákaleiru 8c.  Ekki þar fyrir að það vita þetta orðið flestir en hér með er þetta tilkynnt allri heimsbyggðinni á einu bretti.  Já ... nei ... við erum ekki ólétt, við erum bara að fá okkur hund, eða öllu heldur Anna Regína er að fá sér hund og við hin fáum kanski að eiga hann smá.  Þetta er enginn smá hundur, er af tegundinni CAVALIER KING CHARLES SPANIEL (hvorki meira né minna) og á að heita Nói.  Við reiknum með að fá hann í byrjun júní þó það sé ekki endanlega frágengið.  Hér má skoða króann og systkini hans.

Annars verð ég nú að fara að taka mig á í blogginu - þetta gengur ekki!


Skrítnir þessir bankar

Jæja nú er langt um liðið síðan kallinn bloggaði síðast.  Það er ekki vegna uppgjafar við orð Sigurðar félaga míns heldur er hér um að kenna miklu annríki á ýmsum vígstöðvum.

Ég sagði ykkur frá því hér um daginn að ég fékk ítrekað símtöl frá banka einum sem vildi ólmur fá mig í viðskipti.  Eftir miklar og langar yfirheyrslur, sem voru víst allar hljóðritaðar, ákvað ég að slá til og stofna til viðskipta í þessum ágæta banka.  Skömmu síðar barst mér svo bréf frá þessum sama banka þar sem mér var tjáð að því miður sæi hann sér ekki fært að taka mig í viðskipti að svo stöddu.  Engar frekari skýringar fylgdu bréfinu en ég geri ráð fyrir að ég hafi annaðhvort skuldað of mikið einhversstaðar eða ekki átt þær miklu fúlgur sem bankinn vonaðist til.  Daginn eftir að þetta bréf barst fékk ég annað bréf frá öðrum banka, sem er ekki minn viðskiptabanki, þar sem mér var tjáð að ég ætti hjá þeim loforð fyrir bílaláni.  Nú veit ég ekki alveg hvernig ég á að taka þessu og þori hreinlega ekki að láta reyna á loforðið af ótta við að það standist svo ekki þegar á hólminn er komið.

Skrítnir þessir bankar!


Bloggmella

Nú er ég að síga hægt og rólega niður vinsældalista bloggheima enda hef ég ekki bloggað síðan á páskadag.  Það kostar greinilega blóð og svita að komast á toppinn og ábyggilega tár að halda sér þar.  Annars eru ekki allir jafn hrifnir af þessu brölti mínu upp bloggstigann og hafa janfvel kallað mig "bloggmellu" (tja, kanski ekki kallað mig það en meint það -held ég) og vilja meina að ég sé að  að fara auðveldu leiðina upp áðurnefndan stiga með því að blogga bara um mest lesnu fréttirnar á mbl.is á fá þannig auðvelta traffík á vefinn.  Þarna held ég að sé reyndar á ferðinni enn eitt samstarf þeirra systra Öfundar og Frægðar en þær fylgjast gjarnan að eins og fólk veit.  Þetta er reyndar allt bara hluti af innanhússgríni hér á Galdrakontórnum, en það verður gaman hvað þessi færsla, sem ekki er um frétt á mbl.is, gerir fyrir bloggfrægð mína. Smile

Aldrei of seint

Þessi frétt sannar það í eitt skipti fyrir öll að það er aldrei of seint að vinna stórsigra á íþróttasviðinu.  Þeir sem fylgst hafa með þessari bloggsíðu vita að sá sem hér skrifar slasaðist lítillegar í íþróttum á dögunum og er enn að glíma við þau meiðsl.  Ég hef ekki treyst mér til að spila badmintin síðan ég lenti í óhappinu en hef hinsvegar dregið fram reiðhjólið og golfsettið og brúkað hvort tveggja töluvert síðustu vikur.  Ég hef ekki ennþá unnið stórsigra í íþróttun en þarf greinilega ekki að örvænta því ég hef nú rúm 60 ár til að toppa Elsie McLean.


mbl.is 102 ára kona fór holu í höggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk bankanna

Ég lenti í svona yfirheyrslu á dögunum.  Ég fékk fyrsta símtalið frá Kaupþingi þegar ég var úti London á dögunum, var að ráfa um einhverstaðar í Chinatown, búinn að fá mér einn eða tvo öllara og bað bankamanninn vinsamlegast að hringja síðar.  Svo hringði hann nokkrum sinnum þegar ég var kominn heim og hélt miklar og langar ræður um það að Kaupþing væri æðislegasti bankinn á Íslandi í dag.  Ég lét loks til leiðast og ákvað að prófa að stofna til viðskipta í þessum banka.  Um leið og ég hafði sagt "BINGÓ" hófst þessi bráðskemmtilega yfirheyrsla sem bæði ég og bankamaðurinn hlógum að.  Við pössuðum okkur þó báðir að fara ekki fyrir strikið í gríninu því hann hafði tjáð mér í upphafi allra þessara símtala að þau væru hljóðrituð vegna einhverra gæða- og öryggisstaðla í bankanum.  Það var semsagt svona hálfgerð mafíulykt af þessu öllu saman.

En þegar talað er um banka og hryðjuverk í sömu fréttinni þá dettur mér nú fyrst í hug að íslensku bankarnir séu í raun að fremja hryðjuverk á landanum.  Vaxta- og þjónustugjaldapíningin sem viðgengst í þessu landi á sér nánast hvergi hliðstæðu í heiminum og er ástæða erfiðleika margra heimila og fyrirtækja í fjármálum.  Svo ekki sé nú talað um bölvaða verðtrygginguna sem er eins og kjarnorkusprengja í höndum hryðjuverkamannanna.


mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurgangan hafin!

Já góðir hálsar, sigurganga mín í bloggheimum er hafin.  Ég er kominn á topp 400 listann hjá MBL (var númer 377 kl. 20:00 / 337 kl. 22:55) og nú er bara markmiðið að skáka Sigmari "Gettu-betur-spyrli" og fréttamanni, sem einhverra hluta vegna trónir á toppi áðurnefnds lista.  Ég þigg því allan stuðning og góðar ábendingar um hvernig ná megi þessu göfuga markmiði óskast ritaðar sem athugasemdir við þessa færslu Smile

Var ekki hjólið bara bremsulaust?

Pirruð kona, handleggsbrotin lögga og lasinn hjólreiðamaður.  Vantar ekkert nema Súperman eða Línu Langsokk til að bjarga málunum Smile  Annars er ekki hlægjandi að þessu, svonalagað er auðvitað ekkert grín.


mbl.is Hjólaði niður lögreglumann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband