Færsluflokkur: Jákvætt

Um íbúaþing

Á laugardaginn var sat ég íbúaþing í Mánagarði ásamt um 140 öðrum íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar.  Þingið tókst með miklum ágætum að mínu mati og var stórskemmtilegt og gagnlegt í alla staði.  

Margir velta því eflaust fyrir sér hver sé niðurstaðan af svona þingi og hver sé tilgangurinn með því að halda það.  Er verið að búa til enn eina skýrsluna sem lendir svo bara ofaní skúffu hjá öllum hinum?  Verður eitthvað af þeim hugmyndum sem komu fram á þinginu hrint í framkvæmt?  

Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um að íbúaþingið leiði til beinna framkvæmda og mjög líklega verður gerð einhverskonar skýrsla eða samantekt um það sem gerðist á þinginu, sem lendir sjálfsagt ofan í einhverri skúffunni.  

Þetta er hinsvegar ekki aðalmálið að mínu mati.  Ég er þeirrar skoðunar að niðurstaða íbúaþingsins hafi verið klár þegar því lauk kl. 17 á laugardaginn og á þeim tímapunkti hafi í raun megintilganginum verið náð.  

Það að 140 íbúar eins sveitarfélags hafi komið saman og notað heilan dag til að ræða sameiginleg hagsmunamál sín er í raun niðurstaða þingsins.  Það sem kom út úr þessu íbúaþingi er þess vegna það sem gerðist á meðan á því stóð og það er í raun ekkert smáræði.  Það að 140 manns fari út af svona þingi með hausinn fullan af hugmyndum og pælingum um framtíðina hlýtur að vera jákvætt!

Ef það verður svo til skýrsla eða samantekt, nú eða ef eitthvað verður framkvæmt í framhaldi af þinginu þá er það bara bónus.

Ég vil því óska þeim sem að þinginu stóðu og í raun öllum íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar til hamingju með íbúaþingið á laugardaginn. 


Fjölsæi

Þann 20. febrúar s.l. átti ég þess kost að taka þátt í "Fjölsæi 2011" í Smáranum í Kópavogi.  Viðburðurinn var í boði Evolvia ehf sem hélt sambærilegan viðburð á sama stað fyrir u.þ.b. ári síðan sem kallaðist "Lausnir 2010" og tók ég einnig þátt í þeim viðburði.  Á "Fjölsæi 2011" var orðið / hugtakið fjölsæi kynnt í fyrsta skipti og ég hef hugsað um það á næstum hverjum degi síðan.

En hvað er fjölsæi?  Svarið við þeirri spurningu er að nokkru leiti að finna í bæklingi sem var dreift í Smáranum en þar segir m.a.:

Fjölsæi er nýtt hugtak sem speglar ákveðna færni, næmni og vísdóm. Fjölsæi lýsir eiginleikum einstaklings sem gerir sér grein fyrir því á hve fjölbreyttan og mismunandi hátt annað fólk túlkar hvaðeina sem sagt er og gert - allt frá atburðarás og upplifun til sjónarmiða og verkefna. Allt er upplifað með mismunandi hætti, í mismunandi hrynjanda og litrófi.

Fyrir mér er fjölsæi skilgreining á einum mikilvægasta eiginleika sem hægt er að hugsa sér í mannlegum samskiptum.  Hvernig væri heimurinn ef allir hefðu 100% fjölsæi?  Mér dettur fyrst í hug að sennilega væru þá engin stríð í heiminum, engir kynþáttafordómar eða aðrir fordómar gagnvart fólki og öll stjórnmál og pólitík í heiminum væri sennilega með töluvert öðru sniði en í dag.  Hvernig væri t.d. stemmingin á Alþingi ef allir sem þar störfuðu væru 100% fjölsæir?  Ef hver og einn þingmaður gerði sér fullkomlega grein fyrir því á hve fjölbreyttan og mismunandi hátt hinir 62 þingmennirnir túlkuðu hvaðeina sem sagt væri og gert á Alþingi, já og bara á Íslandi almennt?

Í bæklingnum sem dreift var í Smáranum 20. febrúar s.l. segir einnig um fjölsæi:

Stjórnendum er mikilvægt að þjálfa með sér aukið fjölsæi til að bera betra skynbragð á fjölbreytileika mannlífsins og til að ná lengra í skilvirkum samskiptum.Hægt er að tala um mismunandi stig fjölsæis.

Ef þú ert fjölsæ(r), notfærir þú þér vísdóm annarra. Þú lagar samskipti þín að skilningi og upplifun annarra einstaklinga.

Hægt er að læra að efla fjölsæi sitt, að víkka og dýpka skilning sinn á margbreytileika mannlífs og mannlegrar túlkunar á kringumstæðum og upplifunum.

Þetta ber að virða og nota. Sú þjóð sem notfærir sér markvisst mismunandi eiginleika fólksins í landinu er auðug.

Fjölsæi er því góður eiginleiki sem ég hef ákveðið að læra og efla eins og mér frekast er unnt og temja mér að nota eftir fremsta megni í öllum mannlegum samskiptum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband