Færsluflokkur: Bloggar

Humarhátíð og hornfirska hagkerfið

Pistilinn hér á undan skrifaði ég aðallega til að reyna að losa mig við hugsanir um Humarhátíð. Ég var og er eiginlega búinn að ákveða að hætta að hafa skoðanir á þeirri ágætu hátíð; eiginlega búinn að gefast upp á því að tala fyrir daufum eyrum í mörg ár um eitthvað sem skiptir mig persónulega engu máli í sjálfu sér. Viðbrögðin við pistlinum fannst mér reyndar merkileg; um 450 manns virðast hafa lesið hann og ég hef fengið fullt af kommentum bæði á Facebook og á förnum vegi. Þó ég standi enn við þá ákvörðun mína sem ég opinberaði hér að framan hef ég ákveðið að tjá mig pínulítið meira um hátíðina hér á þessum vettvangi - svona til að hreinsa aðeins betur út úr hausnum.

Hornfirska hagkerfið er hugtak sem mér hefur lengi fundist athyglisvert. Ég veit ekkert hvaðan það er komið og hvort það er hægt að heimfæra það upp á einhver fræði, en ég hef stundum leikið mér að því að setja ýmsa menningarviðburði hér á staðnum í samhengi við þetta hugtak. Hugmyndin um hornfirska hagkerfið er einfaldlega sú að líta á Sveitarfélagið Hornafjörður sem sjáfstætt hagkerfi þar sem peningar geta geta skipt um hendur, komið inn á svæðið eða farið út af því.

Hér eru nokkur dæmi um menningarviðburði sem hægt er að setja í samhengi við þessa pælingu:

Jólatónleikar Karlakórsins Jökuls
Það er nær eingöngu heimafólk sem sækir þennan viðburð svo það koma engir peningar inn á svæðið í tengslum við hann.  Kostnaður við viðburðinn er sennilega nánast enginn því allir gefa vinnu sína.  Tekjunum er síðan varið til að styrkja gott málefni á svæðinu.  Engir peningar koma inn í hagkerfið og engir peningar fara út úr því.

Tónleikar Mugison í Pakkhúsinu
Gestir þessa viðburðar eru nær eingöngu heimamenn og tekjurnar verða því allar til innan svæðisins.  Gera má ráð fyrir að tónleikahaldarar greiði einhvern kostnað innan svæðisins s.s. húsaleigu o.fl. en að öðru leiti fara þeir með tekjurnar með sér út af svæðinu.  Engir peningar koma inn á svæðið og nánast allar tekjurnar fara út úr hornfirska hagkerfinu.

Þorrablót Hafnarbúa (ekkert ákveðið ár - bara uppskáldað dæmi)
Tekjur þorrablótsins verða nánast allar til innan hagkerfisins.  Næstum allir gestir blótsins eru heimafólk og fyrirtæki innan svæðisins veita styrki.   Varðandi kostnaðarliðina þá eru veitingar eru í höndum heimamanna þannig að það hefur engin áhrif á hagkerfið (peningarnir skipta um hendur innan svæðisins) en það er ráðin hljómsveit úr Reykjavík og leigt hljóðkerfi austan af landi sem við gefum okkur að kosti samtals 1.200.000.  Niðurstaðan er því sú að engir peningar koma inn í hagkerfið en 1,2 milljónir fara út úr því.

Haustsýning Hornfirska skemmtifélagsins
Undanfarin ár hafa 700 - 900 manns sótt þennan viðburð og hlutfall aðkomufólks verið á að giska 20-30%.  Í þessu dæmi skulum við gefa okkur að um 200 manns, sem ekki búa innan hornfirska hagkerfisins, sæki viðburðinn og hver og einn eyði 15.000 kr. í viðburðinn sjálfan (matur, gisting, sýning og ball).  Viðburðurinn er algjörlega á vegum heimafólks og litlir peningar fara út úr hornafirska hagkerfinu.  Niðurstaða þessa dæmis er því sú að um 3 milljónir koma inn á svæðið og um 200 þúsund fara út af því (nettó 2,8 milljónir inn í hagkerfið).

Það eru ekki mikil vísindi á bak við þessi dæmi en þau útskýra kannski pælinguna um hornfirska hagkerfið og hvernig nota má hana sem eitt sjónarhorn á t.d. Humarhátíð.  

Það er rétt að taka það skírt fram að ég er ekki að tala fyrir því að engir peningar megi fara út úr þessu svokallaða hornfirska hagkerfi í tengslum við menningarviðburði.  Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að stundum verður menningin að kosta peninga.  Við eigum að fá menningarviðburði inn á svæðið og borga fyrir það, en við eigum að gera það meðvitað.  Viljum við að Humarhátíð sé viðburður sem kostar okkur peninga út úr hornfirska hagkerfinu eða eigum við að stefna að því að Humarhátíð afli tekna inn í þetta ágæta hagkerfi?  Þetta er að mínu mati hluti af stefnunni sem hefur ekki verið mótuð fyrir Humarhátíð.

Ég er þess fullviss að ef við viljum getum við haldið Humarhátíð þannig að nánast allir kostnaðarliðir falla inna hornfirska hagkerfisins.  Og ef rétt er á spöðunum haldið á hátíðin að geta aflað töluverðra tekna inn á svæðið (þá er ég að tala um tekjur af hátíðinni sjálfri - ekki afleiddar tekjur).

Að lokum skora ég á þá sem haldið hafa Humarhátíð undanfarin ár að gera bókhald hátíðarinnar opinbert.  Þá getur fólk séð hvaðan tekjurnar koma og hvert gjöldin fara og þannig sett Humarhátíð í samhengi við þessa hagkerfispælingu.   


Humarhátíð

Ég hef alla tíð verði mikill áhugamaður um Humarhátíð.  Hátíðin er merkilegt fyrirbæri og mjög verðmæt fyrir okkur Hornfirðinga.  Nokkur undanfarin ár hefur hefur mér þó þótt Humarhátið vera á fallanda fæti ef svo má segja.  Dregið hefur úr metnaði, dagskráin þynnst út og almennur doði verið yfir hátíðinni að mínu mati.  Nú hefur verið boðað til opins fundar um Humarhátíð og er fólk hvatt til að mæta og viðra skoðanir sínar á hátíðinni.  Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég ætla að mæta á þennan ágæta fund en ákvað að setja á blað nokkra punkta um mínar skoðanir á Humarhátíð og birta hér á þessari ágætu bloggsíðu.

Markhópur, stefna og framtíðarsýn eru þrjú grundvallaratriði sem vantar að skilgreina fyrir Humarhátíð.  Ég hef á síðustu árum setið nokkra fundi um Humarhátíð og aðra menningarviðburði á Hornafirði og margsinnis bent á nauðsyn þess að skilgreina þessa þætti.  Ég er ekki sá eini sem er þessarar skoðunar en einhverra hluta vegna hafa þessir hlutir ekki verið skilgreindir formlega að því er ég best veit.  Er Humarhátíð fyrir okkur heimamenn eða er stefnan að laða hingað sem flesta gesti?  Er hátíðin hugsuð fyrir fjölskyldufólk eða erum við að stíla inn á unglingana?  Hvernig sjáum við Humarhátíð fyrir okkur árið 2022?  Sennilega eru uppi margar og misjafnar skoðanir á því hvernig svara á þessum spurningum og öðrum álíka, og það er einmitt kjarni málsins; það er engin ákveðin stefna í gangi, enginn ákveðinn markhópur og engin ákveðin framtíðarsýn.  Menn þurfa að koma sér saman um eitt ákveðið svar við hverri spurningu því ef við vitum ekki hvert við ætlum eru sáralitlar líkur á að við komumst þangað!

Ég hef einnig velt því fyrir mér síðustu ár hvort sú staðreynd að Humarhátíð sé fjáröflun fyrir þau félög sem að henni standa, standi hátíðinni í raun fyrir þrifum.  Ef hátíðarhaldarar hafa það eitt að markmiði að ná sjálfir sem mestum peningum út úr hátíðinni er ekki ólíklegt að þeir reyni að gera það með sem minnstri fyrirhöfn.  Þetta finnst mér því miður hafa verið stemmingin undanfarin ár; menn byrja undirbúning á síðustu stundu og nánast kópera hátíðina frá því í fyrra o.s.frv.  Þannig hafa gæði hátíðarinna dalað ár frá ári.   Annað sem mér sýnist vera galli við þetta fjáröflunarfyrirkomulag er að á meðan einhver hagnaðarvon er fyrir hátíðarhaldara vilja þeir helst "eiga" hátíðina einir og hleypa engum öðrum að skipulagningu hennar.  Þetta verður til þess að mjög erfitt er að koma með nýjungar og nýjar hugmyndir inn í skipulagningu og dagskrá hátíðarinnar og öll gagnrýni og athugasemdir "óviðkomandi aðila" eru afgreidd sem neikvæðni og tuð.  Þetta kemur að mínu mati í veg fyrir að hátíðin geti vaxið og dafnað eins og hún ætti að gera.

Ég hef skoðanir á mörgu öðru varðandi Humarhátíð en ætla að láta nægja að fjalla um þessi tvö grundvallaratriði í bili.  Að lokum ætla ég þó að setja fram í örfáum orðum hvað mér finnst um markhóp, stefnu og framtíðarsýn Humarhátíðar:

Markhópur Humarhátíðar á að vera fjölskyldufólk.  Til að byrja með á aðallega að markaðssetja hátíðina fyrir fólk sem tengist svæðinu með einhverjum hætti s.s. brottflutta Hornfirðinga, ættingja þeirra sem hér búa o.s.frv. og smám saman að víkka út hringinn.  Dagskrá hátíðarinnar á algjörlega að miða við þennan markhóp.

Stefnan á að vera sú að gera Humarhátíð að bestu og vinsælustu fjölskylduhátíð landsins.   Við eigum að laða til okkar eins marga gesti (innan markhópsins) og við mögulega getum.  Heimafólk á að sjá um dagskrá hátíðarinnar að eins miklu leiti og mögulegt er.  Við eigum að tefla fram öllu því sem við eigum í menningu, listum, mat o.fl. og sýna gestum hátíðarinnar það með stolti.

Framtíðarsýn - Að lokinni Humarhátíð árið 2022.  
Humarhátíð var haldin í 30. sinn.  Óhætt er að segja að hátíðin sé ein vinsælasta fjölskylduhátíð landsins en um 6000 manns mættu á svæðið í ár.  Gestum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár og bendir allt til þess að svo verði áfram.  Dagskrá hátíðarinnar var mjög metnaðarfull og alfarið í höndum heimamanna sem með góðri samstöðu sýdu allt það besta sem svæðið hefur upp á að bjóða í menningu, listum, mat o.fl.  Fjölmiðlar fjölluðu á jákvæðan hátt um Humarhátíð og Hornafjörð sem hjálpar til við að laða fleira fólk á svæðið á komandi árum.  Fjárhagur Humarhátíðar er tryggur og er almenn samstaða um að greiða sameiginlegan kostnað við heildarskipulagninu, kynningar- og markaðsmál o.fl.  Enginn veltir því lengur fyrir sér hvort Humarhátíðð verði einhverntíma haldin í síðasta sinn.

ÁFRAM HUMARHÁTÍÐ! 


Reykjavík í dag

Góðan og blessaðan daginn og gleðilegt ár. Nú sit ég hérna heima í skúr og er að bíða eftir flugi til Reykjavíkur en ég er að fara í eina af mínum föstu ferðum þangað. Ég hef svosem ekkert að segja en ákvað að drepa tímann með því að henda inn einni færslu hér á bloggið, ég hef nefnilega enn einu sinni ákveðið að reyna að vera duglegri að blogga :) En sjáum hvað setur í þetta skiptið. Það væri ekki leiðinlegt ef að þeir sem reka hér inn nefið myndi kvitta fyrir komuna svo ég sjái hvort það eru einhverjir.   Það er aldrei að vita nema slíkt myndi ýta undir bloggpúkann í mér.

Göngum, göngum

Í maí höfum við farið tvisvar í fjallgöngu.  Í bæði skiptin var gengið um Stafafellsfjöllin sem okkur þykja ægifögur eins og fram hefur komið á þessu bloggi.  Í nokkur ár höfum við bara talað um að það gæti verið gaman að príla upp á þessi fjöll og skoða sig um, en einhverra hluta vegna hefur ekki orðið af því fyrr.  En það var eins og við héldum, þetta er gríðarlega gaman og ég gæti best trúað að við séum komin með nýja dellu.  Svo er þetta líka hollt og gott og öll fjölskyldan getur tekið þátt í þessu.  Til gamans set ég hér myndir úr göngunni sem við fórum í s.l. sunnudag.

 

Fjallganga í Lóni 25. maí 2008

Legó

Já það má með sanni segja að kallinn sé vaknaður til lífsins á ný - þvílík blogggleði (eða hitt þó heldur).  En það er skemmst frá því að segja að ég er nýkominn frá Bandaríkjunum með Önnu Regínu dóttur minni og hóp af bekkjarfélögum hennar og foreldrum þeirra.  Við fórum til Minneapolis þar sem krakkarnir kepptu á opna bandaríska legó mótinu.  Ísjakarnir (liðið heitir það) stóðu sig alveg glimrandi vel í þessari ferð og ég er ofsalega stoltur af þessum krökkum.  Þetta var mikið ævintýri sem við sem vorum í ferðinni munum seint gleyma.  Bendi á myndasafn á slóðinni www.horn.is/lego.

Kallinn að vakna til lífsins á ný

Jú góðir hálsar, ég er á lífi.  Ég hef fengið að heyra það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar síðan 26. febrúar s.l. að nú þurfi ég að fara að skrifa nýja færslu á bloggið.  Það er eflaust alveg rétt, en ég hef bara ekki verið í stuði til þess.  Nú er vorið hinsvegar að koma og með vorinu eykst stuðið og þá hlýtur að fara að koma færsla ;)

Ég hef verið í flensu s.l. 4 daga og þegar þannig er ástatt finn ég mér oft eitthvað tilgangslaust að gera.  T.d. var ég að dunda mér við það í dag að breyta útlitinu á blogginu mínu og nú væri gaman að heyra álit fólks á því.  Myndin í hausnum er að sjálfsögðu tekin í Himnaríki á Jörð, Stafafellsfjöllum í Lóni, og á henni má sjá undirritaðan teygja úr sér fyrir framan Grænu höllina


Gleðilegt nýtt ár!

Ég óska öllum þeim sem kunna að rekast inn á þessa bloggsíðu gleðilegs árs og þakka öll gömlu árin.  Ég strengdi þess ekki heit um áramótin að blogga meira á þessu ári en því síðasta, en ég mun örugglega setja hér einhverja stafi þegar þannig liggur á mér.


Nýtt jólalag

Nú líður að jólum og jólaandinn kom yfir kallinn á dögunum.  Samdi til gamans jólalag og texta og sendi í jólalagakeppni Rásar 2.  Lagði komst ekki áfram þar og því ekkert annað að gera en að "gefa það út" hér í bloggheimum.  Lagið heitir "Um þessi jól" og er flutt af undirrituðum auk þess sem Friðrik Jónsson fer fimum höndum um gítarinn og Nanna Halldóra Imsland syngur bakrödd af sinni alkunnu snilld. Þeir sem hafa áhuga gera hlustað á lagið í tónlistarspilaranum hér til vinstri.  Gaman væri að fá komment á lagið.

Að meina það sem maður segir og segja það sem maður meinar

Jæja góðir hálsar, nú þykir mér rétt að hefja daður við bloggdrósina að nýju eftir æði langt hlé frá þeirri iðju, enda er nú farið að hausta og þá skapast stemming fyrir ýmislegt skemmtilegt, eins og t.d. að borða síld og rúgbrauð, spila badminton og blogga.

Það fyrsta sem mér dettur í hug að blogga um á þessu herrans hausti er hreinskilni.  Ég hef nefnilega lent í því í tvígang undanfarið að lenda upp á hærra c-ið í samskiptum mínum við fólk og hreinlega láta viðkomandi "heyraða" eins og það er kallað.  Eftirá fær maður smá móral og fer að hafa áhyggjur af því hvort viðkomandi hafi móðgast og hvort hann verði nú í fýlu við mann það sem eftir er.  Hvort maður hafi nú gengið aðeins of langt og jafnvel verið pínulítið ósanngjarn.  Ég hef hinsvegar komist að þeirri niðurstöðu að heiðarleiki og hreinskilni eru kostir í fari fólksog kann ég sjálfur vel að meta það þegar fólk kemur fram við mig af hreinskilni og segir skoðun sína umbúðalaust.  En ef maður segir það sem maður meinar verður maður líka að meina það sem maður segir og vera maður til að biðjast afsökunar ef maður kemst að því eftirá að maður hafi gert mistök í þeim efnum.


Heita pottar heitapottar?

Ég heyrði auglýsingu í útvarpinu í dag sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: "Heitapottar í miklu úrvali .... bla bla bla .... eitthvað fyrirtæki sem ég man ekki hvað heitir."  Mér fannst þetta dálítið skondið og fór að velta fyrir mér hvernig svona lagað villist inn í málið og jafnvel festist þar og hvort og þá hvenær á að hætta að líta á svona sem villu.  En það er allavega alveg pottþétt eitthvað verða þeir að heita pottarnir og kanski skiptir ekki máli hvort þeir heita heitir pottar eða heitapottar Smile


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband