Færsluflokkur: Bloggar

Á virkilega að hleypa öllum þessum lesbíum inn í landið!

Þær eru að sjálfsögðu velkomnar mín vegna eins og aðrir sem hingað vilja koma, en manni hefði ekkert komið á óvart þó einhverjir hefðu viljað banna svona stórum hópi af samkynhneigðum konum að koma inn í landið í einu lagi.  Alveg eins og klámráðstefnufólkinu var bannað að koma á dögunum.  Ég er ekki að segja skoðun mína á lesbíum eða klámi, og hvað þá að ég sé að tengja það tvennt saman á einhvern hátt.  Er bara að benda á fáráðnleika þess að taka svona hópa fyrir og meina þeim að koma til landsins á einhverjum ímynduðum forsendum.

En þetta blakmót verður örugglega alveg stórskemmtilegt og vonandi láta allir "sinnar" það óáreitt Smile


mbl.is Evrópskar lesbíur keppa í blaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítið veðurfar

Þetta er alveg stórmerkilegt!  Á meðan á öllu þessu gekk sváfum við Hornfirðingar eins og ungabörn í einu mesta blíðviðri sem sögur fara af á þessum árstíma.  Sá vindmælir sem ég tek mest mark á eru garðhúsgögnin á pallinum hjá mér.  Þau eru úr plasti og því afar létt og fjúka til við minnsta vind.  Eðli málsins samkvæmt eru þessi húsgöng inni í bílskúr yfir veturinn.  Þau voru hinsvegar tekin í gagnið á mánudaginn því eins og lesendur bloggsins vita er vorið komið hér á Hornafirði.  Þegar ég heyrði þessar fréttir af vonda veðrinu í Öræfunum og á Seyðisfirði leit ég út á pall og átti alveg eins von á að garhúsgögnin væru á bak og burt.  En þar stóru þessar elskur, fallega uppstilltar eins og ekkert hefði í skorist, og biðu þess að sólin þerraði af þeim morgundöggina.  Það var alveg klárlega ekkert vont veður á Hornafirði í nótt!
mbl.is Sendibíll fauk af vegi og Norræna slitnaði frá bryggju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bongóblíða um helgina

Í ÞverárgiliJá það er ekki orðum aukið að það var bongóblíða á stór-Hornafjarðarsvæðinu um helgina.  Í gær fórum við stórfjölskyldan í smá útivist.  Byrjuðum á því að keyra inn í Laxárdal í Nesjum, inn að gili sem heitir víst Þverárgil hvar Þverá rennur þvert á Laxána.  Þar gengum við upp og ætluðum á "leynistað" sem dæturnar eiga ásamt ömmu og afa og oft hefur verið talað um.  Það er skemmst frá því að segja að við komumst ekki alla leið á þennan merkilega stað sökum vatnavaxta í Þverá.  Veðrið var hinsvegar svo gott að við röltum í rólegheitum til baka, tíndum steina og nutum sólarinnar.

Í LóniAð því loknu var rennt upp í Lón en eins og fastir lesendur þessarar bloggsíðu vita er það sumarbústaðaland Hornfirðinga og þar eigum við einmitt smá afdrep.  Ekki sumarbústað í eiginlegri merkingu, heldur lóð og draum um sumarbústað.  Reyndar stendur þar mjög merkileg bygging sem kallast Grænahöllin, eftir frægri verbúð sem var og hét hér á Höfn, en það er nú önnur saga.  Uppi í Lóni var 15 stiga hiti sól og logn og útilegu-sumarbústaða-fiðringurinn gerði verulega vart við sig.  Við sátum góða stund á pallinum við Grænuhöllina og fengum okkur kaffi, kók og bakkelsi.


Löggan á Íslandi er kúl

Ég hef fylgst spenntur með umfjöllun Kastljóss um lögregluna undanfarin kvöld.  Þetta hefur verið mjög fróðlegt og á köflum átakanlegt fyrir sveitamann eins og mig sem aldrei hefur komist í kast við lögin almennilega og aldrei augum litið þessa svokölluðu Undirheima sem Kastljós hefur verið að heimsækja í fylgd fíkniefnalögreglunnar.  Hápunkti fannst mér umfjöllunin ná í gærkvöldi þegar fylgst var með sérsveit lögreglunnar.  Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki gert mér grein fyrir að við ættum sérsveit eins og þessa hér á Íslandi.  Ég hélt að svona væri bara til í bíó og kannski einhversstaðar í útlöndum.  Þetta eru greinilega vel þjálfaðir og sérfróðir menn á sínu sviði og ég vildi ekki mæta þeim í myrkri ef ég hefði eitthvað misjafnt í pokahorninu.

Mér skilst að Kastjós ætli að fjalla meira um sérsveitina á næstunni og er ég ánægður með það.  Ég held að það sé ákveðin forvörn fólgin í því að fræða fólk um starfsemi hennar fyrir utan að ég er örugglega ekki einn um að vita lítið um þessi mál.


Vorið er komið

og grundirnar gróa, gilin og lækirnir og allur sá pakki.  Það er alveg á hreinu að vorið er komið hingað til Hornafjarða.  Skilst reyndar að það sé skítaveður annarsstaðar á landinu.  Heyrði í fólki á Egilsstöðum rétt í þessu og þar er snjór.

Mér finnst alltaf gott þegar fer að örla á vorinu.  Í raun finnst mér það gerast fljótlega eftir jólin því þá fer maður að sjá mun á birtunni og uppúr miðjum febrúar kemst maður í og úr vinnu í björtu. Um svipað leiti og lóan birtist fer svo að létta af manni þunglyndi vetrarins og maður fer að fá útilegufiðring í magann.  Samhliða þessu léttist lundin og maður verður jákvæðari og duglegri í vinnunni.  Allt verður einhvernveginn miklu skemmtilegra.

Stórhljómsveitin KUSK tók létta æfingu í gær.   Við skemmtum okkur konunglega og fannst við bara helv.. góðir.  Í lok æfingarinnar varð til grunnur að lagi en slíkt hefur ekki gerst mjög lengi.  Ég held að sú frjósemi sé bara enn ein vísbenginin um að vorið er komið til Hornafjarðar.


mbl.is Lóan er komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biggmakkinn í tísku

Ég hef alltaf haft trú á því að "biggmakkinn" kæmist í tísku fyrr eða síðar og þess vegna hef ég ekki lagt harðar að mér við að losna við hann en raun ber vitni.  Ég hefði geta ráðlagt þessum kanadísku bókaútgefendum að fara þessa leið fyrir löngu síðan því það er óvéfengjaleg staðreynd, og hefur verið lengi, að kútur er betri en "sixpakk".


mbl.is Leita að „alvöru mönnum“ á ástarsögurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér finnst rigningin góð

Þeir sem þekkja mig vita væntanlega flestir að mér finnst rigning betri en margt annað.  Mitt uppáhaldsveður er t.d. grenjandi rigning í logni og það vill svo skemmtilega til að það er einmitt þannig veður á Hornafirði í dag.  Ég hélt upp á það með því að bruna smá rúnt í Lónið með frúnni og það var að sjálfsögðu örlítið betra veður þar, meiri rigning og meira logn Smile

Þegar við tölum um Lónið erum við að tala um Stafafellsfjöll í Lóni en þar er sumarbústaðasvæði Hornfirðinga.  Við eigum semsagt lóð í Lóninu og draum um að byggja þar sumarhús áður en æfin er öll.  Þetta smá kemur, búið að gróðursetja helling af trjám, búa til grasbala, göngustíga og fleira í þeim dúr.  Í vor er ætlunin að koma niður rotþró og jafnvel eitthvað fleira.

Stefnan er að vera mikið í Lóninu í sumar, engin utanlandsferð á dagskrá þetta sumarið og við ákveðin í að halda ferðalögum innanlands í lágmarki a.m.k. hvað vegalengdir varðar.


Máttur bloggsins

Ég varð fyrir þeirri merkilegu lífsreynslu í gær að um 600 manns lásu bloggsíðuna mína.  Þetta gerðist í kjölfar þess að ég bloggaði um hryðjuverka- og Suðurnesjamanninn sem keyrði eins og hálfviti á mótorhjóli og var svo vitlaus að segja öllum heiminum frá því.  Ég verð að játa að mér brá dálítið við þessa miklu aðsókn að blogginu mínu en um leið var þetta mjög skemmtilegt því við félagarnir Sigurður Mar höfðum einmitt verið að metast í gríni um það hvor væri vinsælli bloggari.  Þegar ég fór heim úr vinnunni hafði Siggi betur en síðar um kvöldið hafði ég gjörsamlega stungið hann af.

DSC00120Þessi bloggfærsla er hinsvegar ekki um neitt sérstakt og ég á ekki von á að hún hljóti viðlíka vinsældir og sú síðasta.  Maður er að komast á rétt ról eftir Lundúnaferðina, vorið að koma og allt bara eins og best verður á kosið.  Í gær var Góumót HBG en þar sem ég slasaði mig lítilsháttar um daginn gat ég ekki spilað með en var þess í stað ráðinn yfirdómari.  Þetta var hið skemmtilegasta mót, mikil keppni og hugur í mönnum og ekki laust við að keppnisskapið hafi farið nærri því að hlaupa með suma í gönur.  Meðfylgjandi mynd er af þátttakendum í mótinu, a.m.k. þeim sem ekki voru farnir heim þegar dómarastörfum lauk og ég gat mundað símamyndavélina.


Umferðarhálfviti

Þarna er á ferðinni enn ein hættan við að keyra um þjóðvegi Íslands.  Svo umferðarhálfvitar eru stórhættulegir og í raun bara hundaheppni að þessi fáráður hafi ekki drepið einhvern af þeim fjölmörgu sem hann mætti eða tók framúr í þessari ökuferð.  Mér telst til að hann/hún hafi mætt eða tekið framúr 15 bílum í túrnum og ef við gefum okkur að það séu tveir í hverjum bíl að meðaltali þá er þetta hreint morðtilræði við 30 manns.  Svo erum við að fárast yfir hriðjuverkamönnum!

Ég velti því nú bara fyrir mér hvort ekki sé hægt að finna út hver ökumaðurinn er og taka hann hið snarasta úr umferð.  Það geta ekki verið mörg hjól af þessari gerð hér á Íslandi og svo væri kanski hægt að finna eitthvað út úr því hver sendi inn videoið.  Ef þetta væri CSI væri þetta a.m.k. lítið mál.

Eftir að hafa lesið blogg annara um þessa frétt sýnist mér reyndar hálfvitinn vera fundinn.  Hér er mynd af honum (sá efsti) http://monsarar.bloggar.is/sida/21516/.  Einnig fróðlegt að lesa bloggið þarna, þetta er greinilega gaurinn sem er að keyra.  Þvílíkur fábjáni.


mbl.is Myndir af mótorhjóli á ofsahraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Förum varlega

Eins og fastagestir þessarar bloggsíðu vita komum við frá London í gær.  Óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkra ferða er að keyra þá tæplega 500 kílómetra sem eru frá Keflavíkurflugvelli til Hornafjarðar.  Þegar við lentum í Keflavík í gær fengum við þær fréttir að Hellisheiði væri lokuð vegna veðurs, flutningabíll hefði lent í einhverju óhappi á Reykjanesbraut og rúta með skólakrökkum hefði fokið útaf við Markarfljót.  Við svona aðstæður er ekkert sérstaklega spennandi að keyra áðurnefnda leið en eftir að hafa skoðað upplýsingar á netinu, í textavarpinu og hringt í vegagerðina mátum við stöðuna þannig að ástandið hefði lagast stórkostlega og okkur væri óhætt að bruna heim.  Það er skemmst frá því að segja að það var skítaveður á leiðinni, svarta þoka, grenjandi rigning og rok og víða snjókrapi á veginum.  Það voru því vægast sagt mjög hættulegar aðstæður til akstur á þessari leið og þá reynir maður að fara sérstaklega varlega.  Við komumst heil á höldnu heim eftir um 6 klst. akstur og vorum fegin að geta sofnað í okkar eigin rúmi eftir um 15 tíma ferðalag frá London til Hornafjarðar.

Þegar ég sá þessa frétt um banaslys á Suðurlandsvegi fór ég í huganum yfir ferðalag okkar í gær.  Ég rifjaði upp þegar við keyrðum framhjá skiltinu með klesstu bílunum sem segir hversu margir hafa látist í umferðarslysum á árinu.  Þar stóð að einn hefði látist á þessu ári.  Ég rifjaði upp þegar við keyrðum eftir nýja veginum sem er ein-og-hálf-breidd og töluðum um hvað okkur þætti óþægilegt að keyra eftir honum venga þess hversu þröngur hann er og hversu víraskilrúmið gæti leikið bíla og ekki síst mótorhjól illa ef óhapp irði.  Ég rifjaði upp þegar við keyrðum niður Kambana í svarta þoku og ég sagði samferðafólki mínu að ég setti alltaf þokuljósin á við slíkar aðstæður eftir að fólk sem við þekkjum lenti í hörmulegu slysi á sömu slóðum við svipaðar aðstæður.  Ég rifjaði upp hvernig mér fannst bíllinn stundum skauta ofaná krapinu á veginum og hversu lítið hefði í raun þurft að gerast til að við færum út af veginum eða yfir á öfugan vegarhelming um leið og við mættum bíl.  Ég rifjaði upp allar einbreiðu brýrnar og hversu miklar slysagildrur þær eru í raun og veru, sérstaklega í skyggni ein og var í gærkvöldi.

Það getur verið stórhættulegt að ferðast um þjóðvegi Íslands.  Sérstaklega á þessum árstíma og við aðstæður eins og voru í gærkvöldi.  Það sanna hörmuleg slys eins og þessi frétt segir frá.  Það eru vissulega margar brotalamir og slysagildrur á vegunum en vísan um að FARA VARLEGA Í UMFERÐINNI verður samt aldrei of oft kveðin.


mbl.is Kona lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband