Skápurinn

Ég ætla aðeins að bæta við pælingarnar með að "koma út úr skápnum" sérstaklega í ljósi athugasemdarinnar frá Skúla við síðustu færslu.  Þetta er afar góð athugasemd og ég er búinn að hugsa mikið um hana.  Ég hef samt komist að því að hún er ekki alveg rétt því ég held að skápurinn geti BARA verið læstur innanfrá.  Hann er aldrei læstur utanfrá en við HÖLDUM kannski að hann sé það og að við getum ekki opnað hann þess vegna.  En ástæðan fyrir því að við eigum kannski erfitt með að opna hann er að við erum svo hrædd við það sem bíður okkar fyrir utan skápinn og höldum honum því vel læstum INNANFRÁ.  Þessa hræðslu þarf að yfirvinna og opna síðan skápinn og stíga stoltur út tilbúinn að takast á við hvaðeina sem bíður fyrir utan.  Ég veit mæta vel að þetta er erfitt skref og það er sennilega ekki rétt að taka það nema að maður sé 100% tilbúinn til þess.  En eins og ég hef sagt í fyrri bloggfærslum er það mín reynsla að þetta er farsælt skref, fyrst og fremst fyrir mann sjálfan.


Fordómar

Ég vil byrja á að þakka öllum sem hafa gert athugasemdir við síðustu færslu.  Ég skal fúslega viðurkenna að færslan sú var erfið í fæðingu og ég fékk marga bakþanka með hana, en ef marka má athugasemdir og kveðjur þá gerði ég rétt og held því áfram bloggi um geðheilsu mína í þeirri von að í því geti falist einhver fræðsla og hugsanlega hjálp fyrir þá sem eru í svipuðum sporum.

Í síðustu færslu minntist ég á fordóma gagnvart geðsjúkdómum og þeim sem kljást við þá.  Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs merkir orðið fordómur, hleypidómur eða ógrundaður dómur.  Með öðrum orðum er fordómur byggður á fávísi og þekkingarleysi og það er að sjálfsögðu alltaf tilfellið með fordóma af öllu tagi að fólk er að dæma eittvað án þess að hafa til þess nægar forsendur. 

Í þeim hugrænu pælingum sem ég hef verið í undanfarið hefur hugtakið eigin fordómar komið nokkrum sinnum fyrir.  Þetta hugtak er þá notað yfir hræðslu og ótta, þeirra sem kljást við geðsjúkdóma, við að viðurkenna veikindi sín.  Fólk er þá mikið að velta því fyrir sér hvað öðrum muni finnast og jafnvel að ákveða það fyrirfram að það muni mæta fordómum.  Þessir eigin fordómar eru síst skárri en hinir "hefðbundnu" fordómar því það getur verið gríðarlega erfitt skref að viðurkenna veikleika sína og ekki síður fyrir sjálfum sér en öðrum. 

Mín reynsla er hinsvegar sú að það er nauðsynlegt skref í bataferlinu og í raun grundvöllurinn fyrir því að það geti hafist.  Í mínu tilfelli byrjaði þetta á því að ég áttaði mig á vandanum og viðurkenndi hann fyrir sjálfum sér.  Næsta skref var að leita til læknis til að reyna að fá einhvern bata og fræðast um vandann.  Þriðja skrefið í þessu ferli var svo kannski að ræða þetta við einstaka aðila og koma þannig með annan fótinn "út úr skápnum".  Ég minnist þess nú að mér leið alltaf vel eftir að hafa fengið tækifæri til að ræða þessi mál við einhvern og það var ákveðinn léttir fólginn í því.  Áðurnefndar hugrænar pælingar hafa síðan leitt til fjórða skrefsins; að komið allur "út úr skápnum" og mér finnst það vera ákveðin frelsun og heilmikill léttir.

Ég hef sjálfur aldrei upplifað fordóma í minn garð nema þá ef vera skildi hjá sjálfum mér á sínum tíma.  Allir sem ég hef rætt þessi mál við hafa sýnt þeim skilning og taka yfirleitt ofan fyrir mér fyrir að leggja öll spilin á borðið, eins og sjá má t.d. á athugasemdum fyrir síðustu færslu.  Ég veit að það getur verið erfitt að taka þessi skref út úr skápnum og hver og einn verður að gera það á sínum forsendum.  Ég get samt ekki mælt með öðru en að fólk geri það fyrr eða síðar á einhvern hátt því í því felst, eins og áður segir, mikill léttir og frelsun.

Ég læt þessu hér með lokið að sinni en vonast til að fá fleiri athugasemdir frá þeim sem þetta lesa.  Það er gríðarlega gott að heyra álit fólks á þessum málum.


Geðveikt

Fordómar gagnvart geðsjúkum og geðsjúkdómum eru töluverðir í samfélaginu.  Með opnari umræðu og meiri fræðslu má með tímanum minnka þessa fordóma.  Ég hef ákveðið að leggja mitt lóð á vogarskálarnar og segja mína reynslusögu af þessum málum hér á bloggsíðu minni í von um að það hjálpi einhverjum sem eru í svipaðir stöðu og ég, og einnig að það fræði einhverja um þessi mál og minnki þannig fordóma.

Í þessari færslu ætla ég að fara gróflega yfir sögu míns geðsjúkdóms og svo er stefnan að blogga annað slagið um ýmsar pælingar og leiðir sem hafa hjálpað mér að lifa með honum, reynslu mína af heilbrigðiskerfinu o.fl.

Sagan en nokkuð löng en í sjálfu sér tíðindalítil framanaf.  Hún hefst árið 1995 eða þar um bil þegar ég leitaði í fyrsta skipti til heimilislæknis með vandamál sem ég var sjálfur búinn að skilgreina sem þunglyndi.  Vandamálið lýsti sér í mikilli depurð og vonleysi, erfiðleikum með svefn, erfiðleikum með skap og fleiri hefðbundnum þunglyndiseinkennum.  Ég hafði fundið fyrir þessum einkennum mjög lengi en ástæðan fyrir því að ég leitaði til læknis á þessum tímapunkti var sú að ég var búinn að stofna fjölskyldu og fannst ómögulegt að leggja þessi ósköp á konuna og barnið (sem annaðhvort var nýfætt eða alveg að fæðast - það liggur ekki alveg ljóst fyrir hvenær þetta var nákvæmlega).  Það er skemmst frá því að segja að heimilislæknirinn komst að sömu niðurstöðu og ég; ég átti við vægt þunglyndi að stríða.  Ég fékk væg þunglyndislyf (Cypramil 20mg) og þóttist finna mikinn mun á líðan minni á nokkrum dögum.

Svo liðu árin eitt af öðru og ég bruddi Cypramil daglega og leit á það sem einfalda lausn á mínum vanda.  Ég átti góð og slæm tímabil til skiptis og taldi mér trú um að það væri bara eðlilegt.  Tók bara 2 eða 3 töflur þegar dagarnir voru slæmir og sleppti svo jafnvel lyfjunum í nokkra daga á góðum tímabilum.  Ég leit líka annað slagið inn til heimilislæknisins til að spyrja hvort ég ætti bara ég éta þessi lyf endalaust og fékk alltaf þau svör að þetta væru sauðmeinlaus lyf og það væri ekkert að því að éta þau alla ævi.

Haustið 2007 fer síðan að draga verulega til tíðinda í þessari geðveiku sögu.  Pilluátið hafði nefnilega reynst skammgóður vermir og vandamálið hafði stækkað og hlaðist upp innra með mér í gegnum árin.  Þetta haust var mér mjög erfitt á margan hátt og ég ákvað einn góðan veðurdag að leita enn einu sinni til heimilislæknisins.  Ég sagðist ekki vera sáttur við stöðuna og vildi gera eitthvað róttækt í málinu.  Upp úr því fór ég í fyrsta sinn til sálfræðings sem var upphafið að því bataferli sem ég er í í dag.  Fljótlega kynntist ég Hugarafli og því frábæra fólki sem þar er.  Þaðan var mér m.a. vísað til geðlækna og mér bent á ýmsar hugrænar leiðir til bata.

Eins og áður sagði er ég í mjög góðu bataferli í dag.  Ég hef verið greindur með geðhvörf 2 (bipolar disorder 2) sem ég ætla ekki að útskýra frekar í þessum pistli en fyrir þá sem vilja fræðast meira um þetta þá má gera það t.d. hér.  Ég er ennþá á lyfjum en aðallega gengur bataferlið út á hugræna þætti s.s. að takast á við hugsanir og tilfinningar á nýjan hátt.  Ég fer reglulega í viðtöl hjá sálfræðingi, geðlækni og félagsráðgjafa sem er mjög jákvætt og í raun ein af forsendunum fyrir því að ná bata.  Einnig tek ég þátt í sjálfshjálparhóp sem hefur mikil og góð áhrif á bataferlið.

Ég ætla að láta hér staðar numið í bili enda hef ég farið yfir söguna í stuttu máli.  Þeir sem þetta lesa mega vita það að ég er ávalt tilbúinn að ræða þessi mál og ef ég get svarað einhverjum spurningum eða veitt einhver ráð þá er ég meira en tilbúinn til þess.  Ég hvet síðan lesendur til að kommentera og vonast til að geta skrifað meira um þessi mál hér á blogginu von bráðar.


Gleðilegt nýtt ár!

Ég óska öllum þeim sem kunna að rekast inn á þessa bloggsíðu gleðilegs árs og þakka öll gömlu árin.  Ég strengdi þess ekki heit um áramótin að blogga meira á þessu ári en því síðasta, en ég mun örugglega setja hér einhverja stafi þegar þannig liggur á mér.


Nýtt jólalag

Nú líður að jólum og jólaandinn kom yfir kallinn á dögunum.  Samdi til gamans jólalag og texta og sendi í jólalagakeppni Rásar 2.  Lagði komst ekki áfram þar og því ekkert annað að gera en að "gefa það út" hér í bloggheimum.  Lagið heitir "Um þessi jól" og er flutt af undirrituðum auk þess sem Friðrik Jónsson fer fimum höndum um gítarinn og Nanna Halldóra Imsland syngur bakrödd af sinni alkunnu snilld. Þeir sem hafa áhuga gera hlustað á lagið í tónlistarspilaranum hér til vinstri.  Gaman væri að fá komment á lagið.

Að meina það sem maður segir og segja það sem maður meinar

Jæja góðir hálsar, nú þykir mér rétt að hefja daður við bloggdrósina að nýju eftir æði langt hlé frá þeirri iðju, enda er nú farið að hausta og þá skapast stemming fyrir ýmislegt skemmtilegt, eins og t.d. að borða síld og rúgbrauð, spila badminton og blogga.

Það fyrsta sem mér dettur í hug að blogga um á þessu herrans hausti er hreinskilni.  Ég hef nefnilega lent í því í tvígang undanfarið að lenda upp á hærra c-ið í samskiptum mínum við fólk og hreinlega láta viðkomandi "heyraða" eins og það er kallað.  Eftirá fær maður smá móral og fer að hafa áhyggjur af því hvort viðkomandi hafi móðgast og hvort hann verði nú í fýlu við mann það sem eftir er.  Hvort maður hafi nú gengið aðeins of langt og jafnvel verið pínulítið ósanngjarn.  Ég hef hinsvegar komist að þeirri niðurstöðu að heiðarleiki og hreinskilni eru kostir í fari fólksog kann ég sjálfur vel að meta það þegar fólk kemur fram við mig af hreinskilni og segir skoðun sína umbúðalaust.  En ef maður segir það sem maður meinar verður maður líka að meina það sem maður segir og vera maður til að biðjast afsökunar ef maður kemst að því eftirá að maður hafi gert mistök í þeim efnum.


Heita pottar heitapottar?

Ég heyrði auglýsingu í útvarpinu í dag sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: "Heitapottar í miklu úrvali .... bla bla bla .... eitthvað fyrirtæki sem ég man ekki hvað heitir."  Mér fannst þetta dálítið skondið og fór að velta fyrir mér hvernig svona lagað villist inn í málið og jafnvel festist þar og hvort og þá hvenær á að hætta að líta á svona sem villu.  En það er allavega alveg pottþétt eitthvað verða þeir að heita pottarnir og kanski skiptir ekki máli hvort þeir heita heitir pottar eða heitapottar Smile


Biblían á 100 og eitthvað mínútum

Ég hef gert nokkrar heiðarlegar tilraunir til að lesa Biblíuna í gegnum árin en aldrei komist mjög langt í þeirri ágætu bók.  Ég hef nú reyndar aldrei verið mikill lestrarhestur en einhverra hluta vegna fæ ég stundum þá flugu í höfuðið að kynna mér betur það sem Biblían inniheldur.  Þegar ég var á leið til London um daginn rakst ég á bók í fríhöfninni sem heitir "Biblían á 100 mínútum" og er einhverskonar skyndi útgáfa af hinni helgu bók.  Ég hugsaði mér heldur betur gott til glóðarinnar og hugðist nú fullnægja öllum mínum Biblíuþörfum í eitt skipti fyrir öll.  Ég reiknaði það út að ferðin til London tæki u.þ.b. 180 mínútur þannig að ég hefði góðan tíma til að lesa þessa ágætu bók ásamt því að "njóta" matarins í flugvélinni og jafnvel að fá mér einn lítinn bjór.  Nú svo ef flugið út entist mér ekki til að lesa bókina þá væri einfalt mál að klára hana á heimleiðinni.  Um leið og ég var sestur og búinn að spenna beltið hófst lesturinn.  Athyglin var þó trufluð af og til af samferðafólki mínu sem var að koma sér fyrir allt í kringum mig í flugvélinni með allskonar brussugangi.  Meira að segja flugfreyjan truflaði þennan heilaga lestur þegar hún opnaði hólfið fyrir ofan mig og út hrundi bunki af einhverjum neyðarbæklingum sem þar voru geymdir.  Hún baðst margfaldlega afsökunar en þar sem ég var kominn í þennan kristilega gír datt mér ekki í hug að æsa mig yfir þessu óhappi.

Það er skemmst frá því að segja að hvorki flugferðirnar til né frá London dugðu til að lesa Biblíuna á 100 mínútum.  Hún er reyndar ólesin á náttborðinu hjá mér ennþá.  Ég gríp hana þó af og til en kemst aldrei neitt áfram í henni.  Athyglin fer bara út um hvippinn og hvappinn og ég er farinn að halda að mér sé bara ekki ætlað að lesa Biblíuna.  Ég veit ekki nákvæmlega hvað ég er búinn að eyða miklum tíma í þennan lestur en það eru ábyggilega 100 og eitthvað mínútur.


Bloggleti

Ég var spurður að því s.l. laugardagskvöld hvort ég væri ennþá með flensu.  Svarið er auðvitað nei, en þetta ýtti óneitanlega við bloggaranum í mér og fékk hann til að skammast sín svolítið fyrir bloggleti undanfarið.  Nú er nægilega langt liðið frá kosningum og Eurovision til þess að maður fari ekki að tjá sig um það hér á bloggsíðunni enda mun skemmtilegra að skrifa bara um Lónið, golfið og góða veðrið.  Þetta þrennt hefur skipað töluverðan sess í lífi mínu undanfarna daga auk þess sem nóg hefur verið að gera í spileríi og auðvitað í vinnunni.  Svo styttist í að Nói flytjist til okkar og er gífurlegur spenningur á heimilinu vegna þess.  Við fengum sendan einskonar "ownes manual" um daginn og erum nú að lesa okkur í gegnum hann og undirbúa okkur þannig sem best fyrir komu hvolpsins.  Það er því allt í lukkunnar velstandi hjá mér og mínum, öll flensa á bak og burt og vonandi fyrirgefa aðdáendur þessarar bloggsíðu mér letina undanfarna daga.  Ég lofa að reyna að bæta mig ;)


Flensa

Nú hefur einhver fjárans flensa stungið sér niður á heimilinu og ég ligg heima ásamt yngri dótturinni hóstandi og sjúgandi upp í nefið.  Það að vera veikur er eitt af því leiðinlegasta sem ég geri.  Ég á mjög erfitt með að sitja heima og gera ekki neitt þegar allskonar verkefni bíða þess að vera leyst.  Svo er alveg horðalegt að vera innilokaður í blíðviðri eins og var í gær og þurfa að spila golf í PlayStation með Tiger Woods.  Þá hefði ég nú frekar viljað vera á Silfunesvellinum með Braga Karls.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband