Mánudagur, 30. janúar 2012
Humarhátíð og hornfirska hagkerfið
Pistilinn hér á undan skrifaði ég aðallega til að reyna að losa mig við hugsanir um Humarhátíð. Ég var og er eiginlega búinn að ákveða að hætta að hafa skoðanir á þeirri ágætu hátíð; eiginlega búinn að gefast upp á því að tala fyrir daufum eyrum í mörg ár um eitthvað sem skiptir mig persónulega engu máli í sjálfu sér. Viðbrögðin við pistlinum fannst mér reyndar merkileg; um 450 manns virðast hafa lesið hann og ég hef fengið fullt af kommentum bæði á Facebook og á förnum vegi. Þó ég standi enn við þá ákvörðun mína sem ég opinberaði hér að framan hef ég ákveðið að tjá mig pínulítið meira um hátíðina hér á þessum vettvangi - svona til að hreinsa aðeins betur út úr hausnum.
Hornfirska hagkerfið er hugtak sem mér hefur lengi fundist athyglisvert. Ég veit ekkert hvaðan það er komið og hvort það er hægt að heimfæra það upp á einhver fræði, en ég hef stundum leikið mér að því að setja ýmsa menningarviðburði hér á staðnum í samhengi við þetta hugtak. Hugmyndin um hornfirska hagkerfið er einfaldlega sú að líta á Sveitarfélagið Hornafjörður sem sjáfstætt hagkerfi þar sem peningar geta geta skipt um hendur, komið inn á svæðið eða farið út af því.
Hér eru nokkur dæmi um menningarviðburði sem hægt er að setja í samhengi við þessa pælingu:
Jólatónleikar Karlakórsins Jökuls
Það er nær eingöngu heimafólk sem sækir þennan viðburð svo það koma engir peningar inn á svæðið í tengslum við hann. Kostnaður við viðburðinn er sennilega nánast enginn því allir gefa vinnu sína. Tekjunum er síðan varið til að styrkja gott málefni á svæðinu. Engir peningar koma inn í hagkerfið og engir peningar fara út úr því.
Tónleikar Mugison í Pakkhúsinu
Gestir þessa viðburðar eru nær eingöngu heimamenn og tekjurnar verða því allar til innan svæðisins. Gera má ráð fyrir að tónleikahaldarar greiði einhvern kostnað innan svæðisins s.s. húsaleigu o.fl. en að öðru leiti fara þeir með tekjurnar með sér út af svæðinu. Engir peningar koma inn á svæðið og nánast allar tekjurnar fara út úr hornfirska hagkerfinu.
Þorrablót Hafnarbúa (ekkert ákveðið ár - bara uppskáldað dæmi)
Tekjur þorrablótsins verða nánast allar til innan hagkerfisins. Næstum allir gestir blótsins eru heimafólk og fyrirtæki innan svæðisins veita styrki. Varðandi kostnaðarliðina þá eru veitingar eru í höndum heimamanna þannig að það hefur engin áhrif á hagkerfið (peningarnir skipta um hendur innan svæðisins) en það er ráðin hljómsveit úr Reykjavík og leigt hljóðkerfi austan af landi sem við gefum okkur að kosti samtals 1.200.000. Niðurstaðan er því sú að engir peningar koma inn í hagkerfið en 1,2 milljónir fara út úr því.
Haustsýning Hornfirska skemmtifélagsins
Undanfarin ár hafa 700 - 900 manns sótt þennan viðburð og hlutfall aðkomufólks verið á að giska 20-30%. Í þessu dæmi skulum við gefa okkur að um 200 manns, sem ekki búa innan hornfirska hagkerfisins, sæki viðburðinn og hver og einn eyði 15.000 kr. í viðburðinn sjálfan (matur, gisting, sýning og ball). Viðburðurinn er algjörlega á vegum heimafólks og litlir peningar fara út úr hornafirska hagkerfinu. Niðurstaða þessa dæmis er því sú að um 3 milljónir koma inn á svæðið og um 200 þúsund fara út af því (nettó 2,8 milljónir inn í hagkerfið).
Það eru ekki mikil vísindi á bak við þessi dæmi en þau útskýra kannski pælinguna um hornfirska hagkerfið og hvernig nota má hana sem eitt sjónarhorn á t.d. Humarhátíð.
Það er rétt að taka það skírt fram að ég er ekki að tala fyrir því að engir peningar megi fara út úr þessu svokallaða hornfirska hagkerfi í tengslum við menningarviðburði. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að stundum verður menningin að kosta peninga. Við eigum að fá menningarviðburði inn á svæðið og borga fyrir það, en við eigum að gera það meðvitað. Viljum við að Humarhátíð sé viðburður sem kostar okkur peninga út úr hornfirska hagkerfinu eða eigum við að stefna að því að Humarhátíð afli tekna inn í þetta ágæta hagkerfi? Þetta er að mínu mati hluti af stefnunni sem hefur ekki verið mótuð fyrir Humarhátíð.
Ég er þess fullviss að ef við viljum getum við haldið Humarhátíð þannig að nánast allir kostnaðarliðir falla inna hornfirska hagkerfisins. Og ef rétt er á spöðunum haldið á hátíðin að geta aflað töluverðra tekna inn á svæðið (þá er ég að tala um tekjur af hátíðinni sjálfri - ekki afleiddar tekjur).
Að lokum skora ég á þá sem haldið hafa Humarhátíð undanfarin ár að gera bókhald hátíðarinnar opinbert. Þá getur fólk séð hvaðan tekjurnar koma og hvert gjöldin fara og þannig sett Humarhátíð í samhengi við þessa hagkerfispælingu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 27. janúar 2012
Humarhátíð
Ég hef alla tíð verði mikill áhugamaður um Humarhátíð. Hátíðin er merkilegt fyrirbæri og mjög verðmæt fyrir okkur Hornfirðinga. Nokkur undanfarin ár hefur hefur mér þó þótt Humarhátið vera á fallanda fæti ef svo má segja. Dregið hefur úr metnaði, dagskráin þynnst út og almennur doði verið yfir hátíðinni að mínu mati. Nú hefur verið boðað til opins fundar um Humarhátíð og er fólk hvatt til að mæta og viðra skoðanir sínar á hátíðinni. Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég ætla að mæta á þennan ágæta fund en ákvað að setja á blað nokkra punkta um mínar skoðanir á Humarhátíð og birta hér á þessari ágætu bloggsíðu.
Markhópur, stefna og framtíðarsýn eru þrjú grundvallaratriði sem vantar að skilgreina fyrir Humarhátíð. Ég hef á síðustu árum setið nokkra fundi um Humarhátíð og aðra menningarviðburði á Hornafirði og margsinnis bent á nauðsyn þess að skilgreina þessa þætti. Ég er ekki sá eini sem er þessarar skoðunar en einhverra hluta vegna hafa þessir hlutir ekki verið skilgreindir formlega að því er ég best veit. Er Humarhátíð fyrir okkur heimamenn eða er stefnan að laða hingað sem flesta gesti? Er hátíðin hugsuð fyrir fjölskyldufólk eða erum við að stíla inn á unglingana? Hvernig sjáum við Humarhátíð fyrir okkur árið 2022? Sennilega eru uppi margar og misjafnar skoðanir á því hvernig svara á þessum spurningum og öðrum álíka, og það er einmitt kjarni málsins; það er engin ákveðin stefna í gangi, enginn ákveðinn markhópur og engin ákveðin framtíðarsýn. Menn þurfa að koma sér saman um eitt ákveðið svar við hverri spurningu því ef við vitum ekki hvert við ætlum eru sáralitlar líkur á að við komumst þangað!
Ég hef einnig velt því fyrir mér síðustu ár hvort sú staðreynd að Humarhátíð sé fjáröflun fyrir þau félög sem að henni standa, standi hátíðinni í raun fyrir þrifum. Ef hátíðarhaldarar hafa það eitt að markmiði að ná sjálfir sem mestum peningum út úr hátíðinni er ekki ólíklegt að þeir reyni að gera það með sem minnstri fyrirhöfn. Þetta finnst mér því miður hafa verið stemmingin undanfarin ár; menn byrja undirbúning á síðustu stundu og nánast kópera hátíðina frá því í fyrra o.s.frv. Þannig hafa gæði hátíðarinna dalað ár frá ári. Annað sem mér sýnist vera galli við þetta fjáröflunarfyrirkomulag er að á meðan einhver hagnaðarvon er fyrir hátíðarhaldara vilja þeir helst "eiga" hátíðina einir og hleypa engum öðrum að skipulagningu hennar. Þetta verður til þess að mjög erfitt er að koma með nýjungar og nýjar hugmyndir inn í skipulagningu og dagskrá hátíðarinnar og öll gagnrýni og athugasemdir "óviðkomandi aðila" eru afgreidd sem neikvæðni og tuð. Þetta kemur að mínu mati í veg fyrir að hátíðin geti vaxið og dafnað eins og hún ætti að gera.
Ég hef skoðanir á mörgu öðru varðandi Humarhátíð en ætla að láta nægja að fjalla um þessi tvö grundvallaratriði í bili. Að lokum ætla ég þó að setja fram í örfáum orðum hvað mér finnst um markhóp, stefnu og framtíðarsýn Humarhátíðar:
Markhópur Humarhátíðar á að vera fjölskyldufólk. Til að byrja með á aðallega að markaðssetja hátíðina fyrir fólk sem tengist svæðinu með einhverjum hætti s.s. brottflutta Hornfirðinga, ættingja þeirra sem hér búa o.s.frv. og smám saman að víkka út hringinn. Dagskrá hátíðarinnar á algjörlega að miða við þennan markhóp.
Stefnan á að vera sú að gera Humarhátíð að bestu og vinsælustu fjölskylduhátíð landsins. Við eigum að laða til okkar eins marga gesti (innan markhópsins) og við mögulega getum. Heimafólk á að sjá um dagskrá hátíðarinnar að eins miklu leiti og mögulegt er. Við eigum að tefla fram öllu því sem við eigum í menningu, listum, mat o.fl. og sýna gestum hátíðarinnar það með stolti.
Framtíðarsýn - Að lokinni Humarhátíð árið 2022.
Humarhátíð var haldin í 30. sinn. Óhætt er að segja að hátíðin sé ein vinsælasta fjölskylduhátíð landsins en um 6000 manns mættu á svæðið í ár. Gestum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár og bendir allt til þess að svo verði áfram. Dagskrá hátíðarinnar var mjög metnaðarfull og alfarið í höndum heimamanna sem með góðri samstöðu sýdu allt það besta sem svæðið hefur upp á að bjóða í menningu, listum, mat o.fl. Fjölmiðlar fjölluðu á jákvæðan hátt um Humarhátíð og Hornafjörð sem hjálpar til við að laða fleira fólk á svæðið á komandi árum. Fjárhagur Humarhátíðar er tryggur og er almenn samstaða um að greiða sameiginlegan kostnað við heildarskipulagninu, kynningar- og markaðsmál o.fl. Enginn veltir því lengur fyrir sér hvort Humarhátíðð verði einhverntíma haldin í síðasta sinn.
ÁFRAM HUMARHÁTÍÐ!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 28. febrúar 2011
Um íbúaþing
Á laugardaginn var sat ég íbúaþing í Mánagarði ásamt um 140 öðrum íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þingið tókst með miklum ágætum að mínu mati og var stórskemmtilegt og gagnlegt í alla staði.
Margir velta því eflaust fyrir sér hver sé niðurstaðan af svona þingi og hver sé tilgangurinn með því að halda það. Er verið að búa til enn eina skýrsluna sem lendir svo bara ofaní skúffu hjá öllum hinum? Verður eitthvað af þeim hugmyndum sem komu fram á þinginu hrint í framkvæmt?
Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um að íbúaþingið leiði til beinna framkvæmda og mjög líklega verður gerð einhverskonar skýrsla eða samantekt um það sem gerðist á þinginu, sem lendir sjálfsagt ofan í einhverri skúffunni.
Þetta er hinsvegar ekki aðalmálið að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að niðurstaða íbúaþingsins hafi verið klár þegar því lauk kl. 17 á laugardaginn og á þeim tímapunkti hafi í raun megintilganginum verið náð.
Það að 140 íbúar eins sveitarfélags hafi komið saman og notað heilan dag til að ræða sameiginleg hagsmunamál sín er í raun niðurstaða þingsins. Það sem kom út úr þessu íbúaþingi er þess vegna það sem gerðist á meðan á því stóð og það er í raun ekkert smáræði. Það að 140 manns fari út af svona þingi með hausinn fullan af hugmyndum og pælingum um framtíðina hlýtur að vera jákvætt!
Ef það verður svo til skýrsla eða samantekt, nú eða ef eitthvað verður framkvæmt í framhaldi af þinginu þá er það bara bónus.
Ég vil því óska þeim sem að þinginu stóðu og í raun öllum íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar til hamingju með íbúaþingið á laugardaginn.
Jákvætt | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. febrúar 2011
Fjölsæi
Þann 20. febrúar s.l. átti ég þess kost að taka þátt í "Fjölsæi 2011" í Smáranum í Kópavogi. Viðburðurinn var í boði Evolvia ehf sem hélt sambærilegan viðburð á sama stað fyrir u.þ.b. ári síðan sem kallaðist "Lausnir 2010" og tók ég einnig þátt í þeim viðburði. Á "Fjölsæi 2011" var orðið / hugtakið fjölsæi kynnt í fyrsta skipti og ég hef hugsað um það á næstum hverjum degi síðan.
En hvað er fjölsæi? Svarið við þeirri spurningu er að nokkru leiti að finna í bæklingi sem var dreift í Smáranum en þar segir m.a.:
Fjölsæi er nýtt hugtak sem speglar ákveðna færni, næmni og vísdóm. Fjölsæi lýsir eiginleikum einstaklings sem gerir sér grein fyrir því á hve fjölbreyttan og mismunandi hátt annað fólk túlkar hvaðeina sem sagt er og gert - allt frá atburðarás og upplifun til sjónarmiða og verkefna. Allt er upplifað með mismunandi hætti, í mismunandi hrynjanda og litrófi.
Fyrir mér er fjölsæi skilgreining á einum mikilvægasta eiginleika sem hægt er að hugsa sér í mannlegum samskiptum. Hvernig væri heimurinn ef allir hefðu 100% fjölsæi? Mér dettur fyrst í hug að sennilega væru þá engin stríð í heiminum, engir kynþáttafordómar eða aðrir fordómar gagnvart fólki og öll stjórnmál og pólitík í heiminum væri sennilega með töluvert öðru sniði en í dag. Hvernig væri t.d. stemmingin á Alþingi ef allir sem þar störfuðu væru 100% fjölsæir? Ef hver og einn þingmaður gerði sér fullkomlega grein fyrir því á hve fjölbreyttan og mismunandi hátt hinir 62 þingmennirnir túlkuðu hvaðeina sem sagt væri og gert á Alþingi, já og bara á Íslandi almennt?
Í bæklingnum sem dreift var í Smáranum 20. febrúar s.l. segir einnig um fjölsæi:
Stjórnendum er mikilvægt að þjálfa með sér aukið fjölsæi til að bera betra skynbragð á fjölbreytileika mannlífsins og til að ná lengra í skilvirkum samskiptum.Hægt er að tala um mismunandi stig fjölsæis.
Ef þú ert fjölsæ(r), notfærir þú þér vísdóm annarra. Þú lagar samskipti þín að skilningi og upplifun annarra einstaklinga.
Hægt er að læra að efla fjölsæi sitt, að víkka og dýpka skilning sinn á margbreytileika mannlífs og mannlegrar túlkunar á kringumstæðum og upplifunum.
Þetta ber að virða og nota. Sú þjóð sem notfærir sér markvisst mismunandi eiginleika fólksins í landinu er auðug.
Fjölsæi er því góður eiginleiki sem ég hef ákveðið að læra og efla eins og mér frekast er unnt og temja mér að nota eftir fremsta megni í öllum mannlegum samskiptum.
Jákvætt | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. janúar 2009
Reykjavík í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 27. maí 2008
Göngum, göngum
Í maí höfum við farið tvisvar í fjallgöngu. Í bæði skiptin var gengið um Stafafellsfjöllin sem okkur þykja ægifögur eins og fram hefur komið á þessu bloggi. Í nokkur ár höfum við bara talað um að það gæti verið gaman að príla upp á þessi fjöll og skoða sig um, en einhverra hluta vegna hefur ekki orðið af því fyrr. En það var eins og við héldum, þetta er gríðarlega gaman og ég gæti best trúað að við séum komin með nýja dellu. Svo er þetta líka hollt og gott og öll fjölskyldan getur tekið þátt í þessu. Til gamans set ég hér myndir úr göngunni sem við fórum í s.l. sunnudag.
Fjallganga í Lóni 25. maí 2008 |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. maí 2008
Reykjavík
Geðveikt | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 9. maí 2008
Legó
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 17. apríl 2008
Kallinn að vakna til lífsins á ný
Jú góðir hálsar, ég er á lífi. Ég hef fengið að heyra það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar síðan 26. febrúar s.l. að nú þurfi ég að fara að skrifa nýja færslu á bloggið. Það er eflaust alveg rétt, en ég hef bara ekki verið í stuði til þess. Nú er vorið hinsvegar að koma og með vorinu eykst stuðið og þá hlýtur að fara að koma færsla ;)
Ég hef verið í flensu s.l. 4 daga og þegar þannig er ástatt finn ég mér oft eitthvað tilgangslaust að gera. T.d. var ég að dunda mér við það í dag að breyta útlitinu á blogginu mínu og nú væri gaman að heyra álit fólks á því. Myndin í hausnum er að sjálfsögðu tekin í Himnaríki á Jörð, Stafafellsfjöllum í Lóni, og á henni má sjá undirritaðan teygja úr sér fyrir framan Grænu höllina
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Stóru steinarnir fyrst!
Eins og fram hefur komið hér á þessu bloggi hafa mín geðrænu vandamál verið greind sem geðhvörf 2. Í stuttu máli lýsir þetta sér þannig að geðslag sveiflast upp og niður þannig að ég upplifi þunglyndi og örlyndi til skiptis. Munurinn á geðhvörfum og geðhvörfum 2 er fyrst og fremst sá að örlyndið er ekki eins sterkt og afgerandi hjá þeim sem eru með geðhvörf 2. Ég hafði t.d. ekki áttað mig á því að ég ætti það til að fara í örlyndisástand fyrr en ég fór til geðlæknisins og hann gerði þessa greiningu. Ég reyndi m.a.s. að þræta fyrir þetta í fyrstu en svo kom þetta auðvitað allt heim og saman við líðan mína og hegðun til margra ára.
Þegar ég er í örlyndisástandi eru hlutirnir yfirleitt mjög einfaldir og þægilegir. Allt virðist mögulegt og lífið býður ekki upp á neitt nema stórkostleg tækifæri. Í svona ástandi er "já" eina svarið sem kemur til greina við nánast öllu sem býðst en skynsemin er oft víðs fjarri. Örlyndið er nefnilega eins og góður sólskinsdagur sem varir ekki að eilífu og oft á tíðum fylgir rigningarsuddi og rok í kjölfarið. Þá vill það oft verða svo að maður fær öll "já-in" í bakið og situr uppi með alltof mikið af allskonar verkefnum sem valda manni miklum kvíða og áhyggjum.
Þessa dagana er ég að velta mikið fyrir mér forgangsröðun í lífinu almennt. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir alla að hafa forgangsröðina á hreinu, sérstaklega ef menn eiga það til að finna fyrir kvíða, þunglyndi eða slíkum kvillum. Í því sambandi má benda á sjötta geðroðið sem hljóðar á þessa leið: "Flæktu ekki líf þitt að óþörfu". Það að hafa forgangsröðunina á hreinu auðveldar manni líka að segja já og nei á réttum augnablikum.
Ég heyrði góða dæmisögu um daginn sem fjallar um forgangsröðun. Sagan er þannig að ef þú ert með stóra tunnu og setur fullt af stórum steinum í hana, er hún þá full? Flestir svara sennilega: "Nei, það er fullt af glufum milli steinanna". Það er einmitt málið, það má setja fullt af minni steinum í glufurnar á milli stóru steinanna. En þegar búið er að því, er tunnan þá full? Nei, það eru ennþá glufur á milli steinanna sem má t.d. fylla upp með sandi. En þegar sandurinn er kominn í tunnuna, er hún þá full? Nei það er enn pláss sem á fylla upp með vatni. Þegar það er búið getum við sennilega verið sammála um að tunnan sé loksins full. En hvað hefði gerst ef við hefðum sett sandinn og vatnið fyrst í tunnuna? Þá hefðu stóru steinarnir ekki komist fyrir í tunnunni!
Að lokum við ég þakka þeim sem hafa gert athugasemdir við undanfarnar bloggfærslur, haldið því áfram, það er gaman að heyra frá ykkur.
Geðveikt | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Heiðar Sigurðsson
Bloggvinir
- Aðalheiður Haraldsdóttir
- Árni Rúnar Þorvaldsson
- Ásgerður Kristín Gylfadóttir
- Baldur Kristjánsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Emil Traustason
- Björn Sigfinnsson
- Gestur Kristmundsson
- Grétar Örvarsson
- Gunnlaugur B Ólafsson
- Hulda Rós Sigurðardóttir
- Kári Sölmundarson
- Ottó Marvin Gunnarsson
- Sigurður Einarsson
- Sigurpáll Ingibergsson
- Skúli Freyr Br.
- Steinarr Bjarni Guðmundsson
- Svanhildur Karlsdóttir
- Þórbergur Torfason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar