Humarhátíð

Ég hef alla tíð verði mikill áhugamaður um Humarhátíð.  Hátíðin er merkilegt fyrirbæri og mjög verðmæt fyrir okkur Hornfirðinga.  Nokkur undanfarin ár hefur hefur mér þó þótt Humarhátið vera á fallanda fæti ef svo má segja.  Dregið hefur úr metnaði, dagskráin þynnst út og almennur doði verið yfir hátíðinni að mínu mati.  Nú hefur verið boðað til opins fundar um Humarhátíð og er fólk hvatt til að mæta og viðra skoðanir sínar á hátíðinni.  Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég ætla að mæta á þennan ágæta fund en ákvað að setja á blað nokkra punkta um mínar skoðanir á Humarhátíð og birta hér á þessari ágætu bloggsíðu.

Markhópur, stefna og framtíðarsýn eru þrjú grundvallaratriði sem vantar að skilgreina fyrir Humarhátíð.  Ég hef á síðustu árum setið nokkra fundi um Humarhátíð og aðra menningarviðburði á Hornafirði og margsinnis bent á nauðsyn þess að skilgreina þessa þætti.  Ég er ekki sá eini sem er þessarar skoðunar en einhverra hluta vegna hafa þessir hlutir ekki verið skilgreindir formlega að því er ég best veit.  Er Humarhátíð fyrir okkur heimamenn eða er stefnan að laða hingað sem flesta gesti?  Er hátíðin hugsuð fyrir fjölskyldufólk eða erum við að stíla inn á unglingana?  Hvernig sjáum við Humarhátíð fyrir okkur árið 2022?  Sennilega eru uppi margar og misjafnar skoðanir á því hvernig svara á þessum spurningum og öðrum álíka, og það er einmitt kjarni málsins; það er engin ákveðin stefna í gangi, enginn ákveðinn markhópur og engin ákveðin framtíðarsýn.  Menn þurfa að koma sér saman um eitt ákveðið svar við hverri spurningu því ef við vitum ekki hvert við ætlum eru sáralitlar líkur á að við komumst þangað!

Ég hef einnig velt því fyrir mér síðustu ár hvort sú staðreynd að Humarhátíð sé fjáröflun fyrir þau félög sem að henni standa, standi hátíðinni í raun fyrir þrifum.  Ef hátíðarhaldarar hafa það eitt að markmiði að ná sjálfir sem mestum peningum út úr hátíðinni er ekki ólíklegt að þeir reyni að gera það með sem minnstri fyrirhöfn.  Þetta finnst mér því miður hafa verið stemmingin undanfarin ár; menn byrja undirbúning á síðustu stundu og nánast kópera hátíðina frá því í fyrra o.s.frv.  Þannig hafa gæði hátíðarinna dalað ár frá ári.   Annað sem mér sýnist vera galli við þetta fjáröflunarfyrirkomulag er að á meðan einhver hagnaðarvon er fyrir hátíðarhaldara vilja þeir helst "eiga" hátíðina einir og hleypa engum öðrum að skipulagningu hennar.  Þetta verður til þess að mjög erfitt er að koma með nýjungar og nýjar hugmyndir inn í skipulagningu og dagskrá hátíðarinnar og öll gagnrýni og athugasemdir "óviðkomandi aðila" eru afgreidd sem neikvæðni og tuð.  Þetta kemur að mínu mati í veg fyrir að hátíðin geti vaxið og dafnað eins og hún ætti að gera.

Ég hef skoðanir á mörgu öðru varðandi Humarhátíð en ætla að láta nægja að fjalla um þessi tvö grundvallaratriði í bili.  Að lokum ætla ég þó að setja fram í örfáum orðum hvað mér finnst um markhóp, stefnu og framtíðarsýn Humarhátíðar:

Markhópur Humarhátíðar á að vera fjölskyldufólk.  Til að byrja með á aðallega að markaðssetja hátíðina fyrir fólk sem tengist svæðinu með einhverjum hætti s.s. brottflutta Hornfirðinga, ættingja þeirra sem hér búa o.s.frv. og smám saman að víkka út hringinn.  Dagskrá hátíðarinnar á algjörlega að miða við þennan markhóp.

Stefnan á að vera sú að gera Humarhátíð að bestu og vinsælustu fjölskylduhátíð landsins.   Við eigum að laða til okkar eins marga gesti (innan markhópsins) og við mögulega getum.  Heimafólk á að sjá um dagskrá hátíðarinnar að eins miklu leiti og mögulegt er.  Við eigum að tefla fram öllu því sem við eigum í menningu, listum, mat o.fl. og sýna gestum hátíðarinnar það með stolti.

Framtíðarsýn - Að lokinni Humarhátíð árið 2022.  
Humarhátíð var haldin í 30. sinn.  Óhætt er að segja að hátíðin sé ein vinsælasta fjölskylduhátíð landsins en um 6000 manns mættu á svæðið í ár.  Gestum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár og bendir allt til þess að svo verði áfram.  Dagskrá hátíðarinnar var mjög metnaðarfull og alfarið í höndum heimamanna sem með góðri samstöðu sýdu allt það besta sem svæðið hefur upp á að bjóða í menningu, listum, mat o.fl.  Fjölmiðlar fjölluðu á jákvæðan hátt um Humarhátíð og Hornafjörð sem hjálpar til við að laða fleira fólk á svæðið á komandi árum.  Fjárhagur Humarhátíðar er tryggur og er almenn samstaða um að greiða sameiginlegan kostnað við heildarskipulagninu, kynningar- og markaðsmál o.fl.  Enginn veltir því lengur fyrir sér hvort Humarhátíðð verði einhverntíma haldin í síðasta sinn.

ÁFRAM HUMARHÁTÍÐ! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er flott hjá þér Heiðar! Það sem þarf umfram allt að gera ef halda á áfram að halda Humarhátíð er að móta sér stefnu, hvernig viljum við hafa hátíðina, hverja viljum við fá o.s.frv. Mér líst mjög vel á þessar hugmyndir sem hér koma fram.

Alla Fanney (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 12:46

2 identicon

Sæll Heiðar.

Ég mæli með að þú mætir á fundinn með þessar hugmyndir þínar!

Kv.

Anna Sigga

Anna Sigríður Karlsdóttir (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 13:20

3 identicon

Heir heir!

Mjög flottur pistill Heiðar, auðvitað mætir þú á fundinn.  Ég stið þetta heilshugar. 

Guðbjörg (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 15:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband