Fimmtudagur, 7. febrúar 2008
Geðveikt
Fordómar gagnvart geðsjúkum og geðsjúkdómum eru töluverðir í samfélaginu. Með opnari umræðu og meiri fræðslu má með tímanum minnka þessa fordóma. Ég hef ákveðið að leggja mitt lóð á vogarskálarnar og segja mína reynslusögu af þessum málum hér á bloggsíðu minni í von um að það hjálpi einhverjum sem eru í svipaðir stöðu og ég, og einnig að það fræði einhverja um þessi mál og minnki þannig fordóma.
Í þessari færslu ætla ég að fara gróflega yfir sögu míns geðsjúkdóms og svo er stefnan að blogga annað slagið um ýmsar pælingar og leiðir sem hafa hjálpað mér að lifa með honum, reynslu mína af heilbrigðiskerfinu o.fl.
Sagan en nokkuð löng en í sjálfu sér tíðindalítil framanaf. Hún hefst árið 1995 eða þar um bil þegar ég leitaði í fyrsta skipti til heimilislæknis með vandamál sem ég var sjálfur búinn að skilgreina sem þunglyndi. Vandamálið lýsti sér í mikilli depurð og vonleysi, erfiðleikum með svefn, erfiðleikum með skap og fleiri hefðbundnum þunglyndiseinkennum. Ég hafði fundið fyrir þessum einkennum mjög lengi en ástæðan fyrir því að ég leitaði til læknis á þessum tímapunkti var sú að ég var búinn að stofna fjölskyldu og fannst ómögulegt að leggja þessi ósköp á konuna og barnið (sem annaðhvort var nýfætt eða alveg að fæðast - það liggur ekki alveg ljóst fyrir hvenær þetta var nákvæmlega). Það er skemmst frá því að segja að heimilislæknirinn komst að sömu niðurstöðu og ég; ég átti við vægt þunglyndi að stríða. Ég fékk væg þunglyndislyf (Cypramil 20mg) og þóttist finna mikinn mun á líðan minni á nokkrum dögum.
Svo liðu árin eitt af öðru og ég bruddi Cypramil daglega og leit á það sem einfalda lausn á mínum vanda. Ég átti góð og slæm tímabil til skiptis og taldi mér trú um að það væri bara eðlilegt. Tók bara 2 eða 3 töflur þegar dagarnir voru slæmir og sleppti svo jafnvel lyfjunum í nokkra daga á góðum tímabilum. Ég leit líka annað slagið inn til heimilislæknisins til að spyrja hvort ég ætti bara ég éta þessi lyf endalaust og fékk alltaf þau svör að þetta væru sauðmeinlaus lyf og það væri ekkert að því að éta þau alla ævi.
Haustið 2007 fer síðan að draga verulega til tíðinda í þessari geðveiku sögu. Pilluátið hafði nefnilega reynst skammgóður vermir og vandamálið hafði stækkað og hlaðist upp innra með mér í gegnum árin. Þetta haust var mér mjög erfitt á margan hátt og ég ákvað einn góðan veðurdag að leita enn einu sinni til heimilislæknisins. Ég sagðist ekki vera sáttur við stöðuna og vildi gera eitthvað róttækt í málinu. Upp úr því fór ég í fyrsta sinn til sálfræðings sem var upphafið að því bataferli sem ég er í í dag. Fljótlega kynntist ég Hugarafli og því frábæra fólki sem þar er. Þaðan var mér m.a. vísað til geðlækna og mér bent á ýmsar hugrænar leiðir til bata.
Eins og áður sagði er ég í mjög góðu bataferli í dag. Ég hef verið greindur með geðhvörf 2 (bipolar disorder 2) sem ég ætla ekki að útskýra frekar í þessum pistli en fyrir þá sem vilja fræðast meira um þetta þá má gera það t.d. hér. Ég er ennþá á lyfjum en aðallega gengur bataferlið út á hugræna þætti s.s. að takast á við hugsanir og tilfinningar á nýjan hátt. Ég fer reglulega í viðtöl hjá sálfræðingi, geðlækni og félagsráðgjafa sem er mjög jákvætt og í raun ein af forsendunum fyrir því að ná bata. Einnig tek ég þátt í sjálfshjálparhóp sem hefur mikil og góð áhrif á bataferlið.
Ég ætla að láta hér staðar numið í bili enda hef ég farið yfir söguna í stuttu máli. Þeir sem þetta lesa mega vita það að ég er ávalt tilbúinn að ræða þessi mál og ef ég get svarað einhverjum spurningum eða veitt einhver ráð þá er ég meira en tilbúinn til þess. Ég hvet síðan lesendur til að kommentera og vonast til að geta skrifað meira um þessi mál hér á blogginu von bráðar.
Um bloggið
Heiðar Sigurðsson
Bloggvinir
- Aðalheiður Haraldsdóttir
- Árni Rúnar Þorvaldsson
- Ásgerður Kristín Gylfadóttir
- Baldur Kristjánsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Emil Traustason
- Björn Sigfinnsson
- Gestur Kristmundsson
- Grétar Örvarsson
- Gunnlaugur B Ólafsson
- Hulda Rós Sigurðardóttir
- Kári Sölmundarson
- Ottó Marvin Gunnarsson
- Sigurður Einarsson
- Sigurpáll Ingibergsson
- Skúli Freyr Br.
- Steinarr Bjarni Guðmundsson
- Svanhildur Karlsdóttir
- Þórbergur Torfason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábært framtak hjá þér að segja þína sögu!
Góður möguleiki á að hún hjálpi einhverjum.
DoctorE (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 16:02
Frábært félagi, ég er rosalega stolt af þér.
Anna María (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 08:15
Orð í tíma tölum minn kæri. Gangi þér vel.
Guðlaug Hestnes (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 12:01
Góð færsla, ég er stolt af þér
Svanhildur Karlsdóttir, 9.2.2008 kl. 18:06
Ja hérna, kæri vinur! Ekki hafði maður hugmynd um að þetta væri svona enda hressari og skemmtilegri menn vandfundnir Það er alveg rétt að umræða um geðræna sjúkdóma er nauðsynleg og það þarf að halda henni opinni. Ég man eftir því að þegar bókin Englar alheimsins kom út, varð töluverð umfjöllun og menn komu stökkvandi fram í dagsljósið með reynslusögur sínar. Bókin varð skyldulesning í 10. bekk fyrir samræmt próf og er ennþá notuð í mjög mörgum skólum og verður vonandi áfram. Ég kenndi þessa bók í mörg ár og það var mjög gaman að finna þá viðhorfsbreytingu sem varð á krökkunum á einni önn gagnvart geðsjúkdómum - frá hræðslu til skilnings.
En betur má ef duga skal og ennþá eru margir feimnir við að tala opinskátt um að þeir eigi við geðræn vandamál að stríða. Gildir það jafnt um fullorðna sem og börn og unglinga og aðstandendur þeirra.
Mér finnst frábært hjá þér að koma fram og segja þína sögu, ekki síður þar sem þú býrð í litlu samfélagi þar sem allir þekkja þig. Þetta á alveg örugglega eftir að gefa fleirum kjark, ég efast ekki um það. Við hér óskum þér alls hins besta á bataveginum og sendum kærar kveðjur til fjölskyldunnar
Aðalheiður Haraldsdóttir, 10.2.2008 kl. 10:55
Hrein og tær snilld.
Boðskapur sögunnar að mínu mati er að yfirborðið er aðeins Hollywood leikmynd og það sem virkilega skiptir máli er það sem er á bakvið hana ... þá kemst maður að því hvað lífið snýst raunverulega um.
Það að þú skulir setja sögu þína á prent verður vafalaust mörgum hvatning til að vera einlægir og hreinskilnir, ekki síst fólki úr litla samfélaginu okkar fyrir austan. Margir slást við ýmsan vanda án þess að þora að koma fram með hann, sem þó í mörgum tilvikum er einmitt fyrsta leiðin til að fá hjálp og bata.
Ég hlakka til að lesa framhaldið!
Skúli Freyr Br., 10.2.2008 kl. 21:47
Nú er ég hlessa!!!! Þú af öllum, en svona er nú lífið alltaf að koma okkur á óvart og enginn kemst í gegnum þetta blessaða líf á rósrauðu skýi ( nema kannski þeir sem ekki leita sér hjálpar ) Gangi þér vel í baráttu þinni ég veit að eigi raun að þetta er ekki auðvelt, engin veikindi eru það. Kveðja Sigrún
SigrúnSV. (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 21:52
Þú segir fréttir félagi Heiðar. Ekki hafði ég grun um að þessi sjúkdómur væri að hrjá þig. Þú ert góð fyrirmynd. Gangi þér vel í baráttunni.
Sigurpáll Ingibergsson, 11.2.2008 kl. 13:31
Ég segi eins og fleiri ekki hefði mig grunað að þú Heiðar hressi! Ættir við þunglyndi að stríða. En svona er þetta nú, þekki fleiri ofurhressa einstaklinga sem hafa átt við svipuð vandamál að stríða. Fólk ber þessa hluti ekki endilega utan á sér, og held ég að það séu mun fleiri en nokkurn grunar sem glíma við þunglyndi eða aðra geðsjúkdóma í einhverri mynd einhvern tíman á lífsleiðinni. Ég held og hef það sterklega á tilfinningunni að það að standa upp t.d í bloggheimum og segja frá svona opinskátt sé stór hluti af leiðinni til bata og hjálpi líka öðrum í leiðinni bæði að skilja að það er venjulegt fólk sem glímir við geðsjúkdóma og þorir að viðurkenna það og það er leið að bata.
Gangi þér vel Heiðar. Ég tek ofan fyrir þér og öllum þeim sem þora að segja frá og draga geðsjúkdóma út úr "skápnum" og undan "rúmum"
Íris Gíslad. (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 20:05
Frábært skref hjá þér að deila reynslu þinni hér sem og að bjóða fram aðstoð þína og ráðleggingu í sambandi við þennan sjúkdóm. Mjög fróðlegt líka að lesa greininguna á síðunni sem þú bentir á.
Ég gleymi ekki minni fyrstu upplifun af geðsjúkdómi. Ég var neflilega svo hissa yfir því hversu falinn hann var. Hann var í fjölskyldunni hjá bestu vinkonu minni og því miður endaði það ekki vel. Ég man ennþá hvað ég upplifði þetta sem óáþreyfanlegan sjúkdóm og fannst einhvernveginn miklu erfiðara að gera mér grein fyrir honum (enda líka frekar ung).
Það er alltaf upplýsandi að lesa svona reynslusögur og hjálplegt á margan hátt. Gangi þér vel á þinni góðu batabraut Heiðar.
Hulda Rós Sigurðardóttir, 11.2.2008 kl. 21:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.