Fjölsæi

Þann 20. febrúar s.l. átti ég þess kost að taka þátt í "Fjölsæi 2011" í Smáranum í Kópavogi.  Viðburðurinn var í boði Evolvia ehf sem hélt sambærilegan viðburð á sama stað fyrir u.þ.b. ári síðan sem kallaðist "Lausnir 2010" og tók ég einnig þátt í þeim viðburði.  Á "Fjölsæi 2011" var orðið / hugtakið fjölsæi kynnt í fyrsta skipti og ég hef hugsað um það á næstum hverjum degi síðan.

En hvað er fjölsæi?  Svarið við þeirri spurningu er að nokkru leiti að finna í bæklingi sem var dreift í Smáranum en þar segir m.a.:

Fjölsæi er nýtt hugtak sem speglar ákveðna færni, næmni og vísdóm. Fjölsæi lýsir eiginleikum einstaklings sem gerir sér grein fyrir því á hve fjölbreyttan og mismunandi hátt annað fólk túlkar hvaðeina sem sagt er og gert - allt frá atburðarás og upplifun til sjónarmiða og verkefna. Allt er upplifað með mismunandi hætti, í mismunandi hrynjanda og litrófi.

Fyrir mér er fjölsæi skilgreining á einum mikilvægasta eiginleika sem hægt er að hugsa sér í mannlegum samskiptum.  Hvernig væri heimurinn ef allir hefðu 100% fjölsæi?  Mér dettur fyrst í hug að sennilega væru þá engin stríð í heiminum, engir kynþáttafordómar eða aðrir fordómar gagnvart fólki og öll stjórnmál og pólitík í heiminum væri sennilega með töluvert öðru sniði en í dag.  Hvernig væri t.d. stemmingin á Alþingi ef allir sem þar störfuðu væru 100% fjölsæir?  Ef hver og einn þingmaður gerði sér fullkomlega grein fyrir því á hve fjölbreyttan og mismunandi hátt hinir 62 þingmennirnir túlkuðu hvaðeina sem sagt væri og gert á Alþingi, já og bara á Íslandi almennt?

Í bæklingnum sem dreift var í Smáranum 20. febrúar s.l. segir einnig um fjölsæi:

Stjórnendum er mikilvægt að þjálfa með sér aukið fjölsæi til að bera betra skynbragð á fjölbreytileika mannlífsins og til að ná lengra í skilvirkum samskiptum.Hægt er að tala um mismunandi stig fjölsæis.

Ef þú ert fjölsæ(r), notfærir þú þér vísdóm annarra. Þú lagar samskipti þín að skilningi og upplifun annarra einstaklinga.

Hægt er að læra að efla fjölsæi sitt, að víkka og dýpka skilning sinn á margbreytileika mannlífs og mannlegrar túlkunar á kringumstæðum og upplifunum.

Þetta ber að virða og nota. Sú þjóð sem notfærir sér markvisst mismunandi eiginleika fólksins í landinu er auðug.

Fjölsæi er því góður eiginleiki sem ég hef ákveðið að læra og efla eins og mér frekast er unnt og temja mér að nota eftir fremsta megni í öllum mannlegum samskiptum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband